Glæsilegasta ball sumarsins um næstu helgi

Ein besta ballhljómsveit landsins, Sálin hans Jóns, og 800Bar sameina krafta sína á Draugabarnum á Stokkseyri laugardagskvöldið 28. júlí.

800Bar er á hjólum þetta sumarið og er þetta annar viðburðurinn sem 800Bar stendur fyrir á Draugabarnum. Aðdáendur Sálarinnar bíða örugglega spenntir en Sálin tekur alltaf eitt sumarball á Suðurlandi á hverju sumri og nú er komið að því. Útkoman verður glæsilegasta ball sunnlendinga sumarið 2012.

Draugabarinn er stórt og glæsilegt húsnæði þar sem í boði eru þrír stórir salir en auk þess er skemmtilegt útisvæði, sem hentar vel fyrir sumarball.

“Sálina Hans Jóns Míns þarf ekki að kynna fyrir fólki og það má búast við fólki á öllum aldri á ballið,” sagði Eiður Birgisson á 800Bar í samtali við sunnlenska.is. “Við viljum hvetja alla til þess að mæta á Stokkseyri á laugardagskvöldið og ef vel gengur þá heldur 800Bar á hjólum áfram að rúlla og halda skemmtilegustu böllin,” sagði Eiður.

Hvað nýjan 800Bar á Selfossi varðar sagði Eiður að þar væru ákveðnir hlutir í skoðun og mögulegt að fréttir af nýjum bar myndu berast fljótlega.

Forsala miða á Sálarballið verður í kvenfataversluninni Fantasíu við Eyraveg 2 og hefst hún á miðvikudaginn.

Sálin á Draugabarnum á Facebook