„Fullt af ást og löðrandi í erótík“

L.G. Jackson og hljómsveitin Loveaholics.

Kynþokkafyllsta fitubolla heims, Love Guru, og góðvinur hans Doddi hafa tekið höndum saman í nýju lagi, „Desire“. Þetta er í fyrsta skipti sem þessir félagar gefa út tónlist saman þrátt fyrir að hafa átt í mjög nánu samstarfi síðustu 17 árin.

Hægt er að finna lagið neðst í þessari frétt en það er sumarlegt mjög, í diskó house stíl og fullt af ást og löðrandi í erótík en þar má heyra Love Guru syngja í fyrsta skipti. Hingað til hefur hann meira haldið sig við röfl og köll. Þrátt fyrir að vera nýkomið út hefur lagið strax vakið mikla athygli og umtal. Útvarps- og plötusnúðagoðsögnin frá Selfossi, Andrea Jónsdóttir, lét meðal annars hafa eftir sér að lagið „vínyljaði í henni danshjartað.“

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og gylliboð hefur Love Guru ítrekað hafnað boði sunnlenska.is um viðtal. Hann einfaldlega talar ekki við fjölmiðla.

Doddi var hins vegar til í viðtal og hann segir ástæðuna fyrir þessu samstarfi sínu og Love Guru einfaldlega vera þá að það vissi engin hvor ætti að flytja lagið. „Lagið er full erótískt fyrir Dodda en samt er endalaust sungið um Dodda (D O Double D III) í laginu svo við ákváðum að gera þetta í sameiningu,“ segir Doddi.

Myndband frumsýnt á laugardagskvöld
Myndbandið við lagið verður frumsýnt í kvöld kl. 20:00 á flestum samfélagsmiðlum og Youtube. Myndbandið er neðst í fréttinni en Doddi segir að hugmyndin að myndbandinu sé Love Guru frá árinu 1980.

„Í þá daga kallaði hann sig L.G. Jackson og túraði um Nevada fylki með hljómsveitinni Loveaholics við ágætan orðstír,“ segir Doddi en meðlimir Loveaholics (í myndbandinu) eru auk Dodda þau Jón Gnarr á bassa Guðrún Ásta Þórðardóttir (dóttir Dodda) á hljómborði, Selfyssingurinn Jón Þór Helgason „Lakkrís“ á gítar og bakraddirnar Selma Hafsteinsdóttir og Elísa Hildur Þórðardóttir (ekki dóttir Dodda). Eiginkona Dodda, Magna Ósk, skaut myndbandið á síma og sonurinn, Kristófer 10 ára, sá um playbackið.

Mætir í tíunda sinn á Kótelettuna
Love Guru var heitasti bitinn á tónlistarmarkaðnum á árunum 2003 til 2004 þar sem hann kom fimm lögum inn á topp tíu á Íslenska listanum á FM 957. Í kjölfarið skemmti hann og gleðihópurinn Love Guru Allstars landanum á sveittum dansleikjum til ársins 2007 þegar Guru lagðist í dvala.

„Árið 2010 fékk ég svo símtal frá ungum herramanni frá Selfossi sem vildi fá Guru austur og „taka lagið“. Var þar á ferðinni Einar Kótelettustjóri sem var að halda sína fyrstu Kótelettuhátíð og fannst honum vanta kirsuberið á kökuna. Hann hringdi sumsé klukkan 10 á laugardagskvöldinu,“ rifjar Doddi upp en hann sagði pass í það skiptið. „Síðan þá hefur Love Guru komið fram á öllum Kótelettuhátíðunum og átti að mæta í tíunda skiptið í ár og mun gera það!“

Fyrri greinFanney nýr formaður USVS
Næsta greinGul viðvörun í nótt og á morgun