Frón rís á gömlum rústum

„Þetta er búið að taka sinn tíma en við erum ánægð með hvernig til hefur tekist,“ segir Árni Steinarsson, annar eiganda skemmtistaðarins Fróns á Selfossi, sem opnaður verður í kvöld, laugardagskvöld.

Frón er reistur á rústum 800Bars, við Eyraveginn á Selfossi sem brann til kaldra kola í mars í fyrra. Endurbygging hússins hófst í byrjun desember og óhætt er að segja að vel hafi til tekist með hana.

Búið er að taka loftið í húsinu upp og staðurinn virðist allur rýmri, salerni og öll aðstaða glæsileg og flottur bar. Vel heppnuð innrétting hefur tilvísun í Ísland, rétt eins og nafnið. Þarna er að finna birkitré úr Haukadalsskógi, ljósmyndir og fleira sem hæfir þema staðarins.

„Við innréttuðum þetta svolítið eftir okkar höfði,“ segir Árni en þau Anna Einarsdóttir eiga og reka staðinn. Frón verður allt í senn næturklúbbur, skemmtistaður og sportbar, en ekki síst verða salir til útleigu fyrir hverskonar viðburði og veislur, enda er þar prýðis aðstaða til alls og fullkomið eldhús. Í heildina er Frón 450 fermetrar auk 50 fermetra útisvæðis og þarna er hægt að hafa sæti fyrir 200 manns. Hægt verður að kaupa pizzur með boltanum og í nætursölu um helgar.

Árni segir að staðurinn sé fyrir alla en þarna verður 22 ára aldurstakmark. Segir hann verða viðburði, allt frá rólegheitum upp í dúndrandi danstónlist þegar það á við. Gert er ráð fyrir að fólk geti komið í smærri hópum og haft ákveðið afdrep fyrir sig.

„Við opnum samt með nokkrum látum því það er hljómsveitin Gus Gus sem ríður á vaðið á opnunarkvöldinu, 1. júní,“ segir Árni. Húsið opnar kl. 23 og líklegt má telja að talsverð eftirvænting ríki fyrir enduropnun staðarins og komu þessarar þekktu hljómsveitar.

Fyrst um sinn verður opið fimmtudaga, föstudaga og laugardaga, en Árni segir stefnt að meiri opnun síðar meir, einkum í tengslum við stóra sjónvarpsviðburði er að ræða, íþróttaútsendingar og slíkt. „Svo hlökkum við bara til að taka á móti Sunnlendingum,“ bætir Árni við að lokum.

Fyrri greinByggðaþróunarverkefni í Skaftárhreppi
Næsta greinÓmar og Sveitasynir í safnaðarheimilinu