Frábær stemmning á Popphorninu

Það var fullt úr úr dyrum og troðfullt á sviðinu í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn í kvöld þar sem stærsta lúðrasveit landsins spilaði með landsfrægum poppurum á tónleikum sem nefndust „Popphornið“.

Tónleikarnir voru hluti af landsmóti Sambands íslenskra lúðrasveita sem fram fer í Þorlákshöfn um helgina en Lúðrasveit Þorlákshafnar hafði veg og vanda að tónleikunum.

Þar komu fram 200.000 Naglbítar, Jónas Sigurðsson og Ritvélar framtíðarinnar og Fjallabræður ásamt Sverri Bergmann. Sjö lúðrasveitir voru mættar til leiks og var þeim skipt upp í þrjár risalúðrasveitir.

Í lokin komu allar sveitirnar saman í eina þrjúhundruðmanna sveit og spiluðu þekktustu lög popphljómsveitanna. Þakið ætlaði að rifna af höllinni þegar Jónas Sig taldi í Hamingjan er hér. Látunum linnti ekki fyrr en þessi risavaxna lúðrasveit hafði marserað út úr húsinu og þar hélt spilamennskan áfram undir berum himni á meðan hamingjusamir tónleikagestir gengu út í haustkvöldið.

Fyrri greinSelfoss gaf eftir í lokin
Næsta greinKvöldmessa með Magnúsi Þór