Forsala í fullum gangi

Vetrartónleikaröð Hvítahúsins heldur áfram og nú er komið að Fjallabræðrum sem stíga á stokk á föstudagskvöld, 19. nóvember.

Fjallabræður eru einn kraftmesti og ef til vill óvenjulegasti kór landsins en hann var óformlega stofnaður árið 2006 og skipar nokkra tugi karlmanna. Kórinn gaf út sína fyrstu breiðskífu í fyrra og hafa nokkur lög af henni hljómað á útvarpsstöðvum landsins, þar má nefna lagið Freyja sem er samið af Magnúsi Þór Sigmundssyni.

Kórinn nýtur fulltingis rokksveitar sem sér um undirleik og þess má geta að Óskar Þormarsson, trommari úr Rangárvallasýslu, slær taktinn í þeirra hljómsveit.

Kórinn tróð upp á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í sumar með eftirminnilegum hætti og hélt svo tónleika í Fljótshlíðinni í haust þar sem miðar seldust upp á augabragði og um 300 manns fylltu salinn.

Húsið opnar kl. 21 og hefjast tónleikarnir stundvíslega kl. 22. Hægt er að fræðast frekar um tónleikana og vinna á miða á Suðurland FM, www.963.is. Forsala er í fullum gangi í Barón, Kjarnanum á Selfossi. Hér er á ferðinni tónleikar sem sunnlenskir tónlistaraðdáendur ættu alls ekki að láta fram hjá sér fara.