Forsala hafin á risadansveislu

Hljómsveitin heimsfræga GUS GUS mun hita upp fyrir útkomu nýrrar plötu í Hvítahúsinu á Selfossi nk. laugardagskvöld, 5. mars.

GUS GUS hópurinn verður ekki það eina sem boðið verður uppá þetta kvöld því að Haffi Haff mun hita upp og DJ-ast og skemmta að sinni alkunnu snilld.

Síðast þegar að hópurinn mætti í Hvítahúsið var fullt hús frábær stemmning og greinilegt að Sunnlendingar kunnu vel að meta danstóna af bestu gerð, enda var dansað í hverju horni hússins. Hljómsveitin mun að sjálfsögðu taka alla sína bestu smelli.

GUS GUS hefur verið í hljóðveri síðustu daga að taka upp sína áttundu breiðskífu og mun eitt lag plötunnar bera nafnið Selfoss. GUS GUS var þar með komin í góðan hóp hljómsveita sem hafa gert Selfoss að yrkisefni á plötum sínum.

Húsið opnar kl. 23 og mun hljómsveitin stíga á svið fljótlega upp úr miðnætti, en fyrir mun Haffi Haff þeyta skífum og skemmta gestum . Engu verður til sparað í hljóði og ljósum til að uppfylla kröfur sveitarinnar um að tónlistin skili sér í fullum gæðum til aðdáenda.

Forsala miða á þennan stórviðburð byrjar í Barón, Kjarnanum á Selfossi í dag, mánudaginn 28. febrúar kl. 14. Síðast ruku miðarnir út á mettíma og er ekki búist við að það verði öðruvísi að þessu sinni.

Fyrri greinHlaut alvarleg höfuðmeiðsl
Næsta greinSláturhúsið selur Kjötbankann