Forsala hafin á konukvöldið

Forsala er hafin á konukvöld Hvítahússins og Suðurland FM sem fram fer í Hvítahúsinu síðasta vetrardag. Mikið verður um dýrðir þetta kvöld en Heiðar Jónsson, snyrtir, verður kynnir og veislustjóri.

„Þetta er í þriðja sinn sem konukvöldið er haldið og í fyrra var gríðarleg stemmning og fullt út úr dyrum. Þetta er einstakt kvöld þar sem konur á öllum aldri koma saman og hafa gaman. Heiðar snyrtir fór á kostum í fyrra og ekki er amalegt að hafa Helgu Brögu með í för ásamt fjölda sunnlenskra fyrirtækja,“ sagði Einar Björnsson, staðarhaldari, í samtali við sunnlenska.is.

Auk uppistands Helgu Brögu verður Alan Johnson með Michael Jackson atriði. Boðið verður upp á fjölbreyttar kynningar og tískusýningar. Kvöldið endar svo með dansleik þar sem Klaufarnir stíga á stokk.

Forsala er byrjuð í Riverside Spa, Motivo og Lindinni.

Fyrri greinFjórir íbúafundir í dag
Næsta greinGréta Berg sýnir í Hveragerði