Flestir fá eitthvað fyrir sinn músíksnúð

„Það er alltaf gaman að taka kjuðana fram, sem er því miður alltof fátítt þessa dagana,“ segir Haraldur Bachmann, trommari hljómsveitarinnar Oxford sem leikur á Útlaganum á Flúðum á laugardaginn.

Hann segir það alltaf gaman þegar þeir félagar koma saman. „Þessir drengir eru ágætir, bandið einnig ágætt og stemningin nær alltaf góðum hæðum; þannig að þeir sem mæta á Útlagann á laugardag verða ekki fyrir vonbrigðum og flestir fá eitthvað fyrir sinn músíksnúð,“ segir Haraldur.

Hann hvetur þá sem mæta til að taka virkan þátt. „Sérstaklega þar sem við erum ætíð opnir fyrir óskalögum og leggjum hugrakkir í flestar óskir,“ segir trommarinn.

Þetta er í fysta skipti sem hljómsveitin kemur saman í tæp tvö ár og eftirvæntingin því mikil. Húsið opnar kl. 23, telja strákarnir í fyrsta lag upp úr miðnætti og verður boðið upp á alvöru sveitaball. „Ég hlakka til og veit að strákarnir hlakka til og það ættu allir að hlakka til sem koma til með að mæta,“ segir Haraldur að lokum.

Fyrri greinIngibjörg syngur í Sólheimakirkju
Næsta greinVarðeldur vakti slökkviliðið