Fjöldi listamanna á Bakkanum

Bakkinn alþýðu- og hljómbær tónlistarhátíð hefst á Eyrarbakka á morgun, fimmtudag og lýkur á sunnudag. Þar koma fram hinir ýmsu alþýðutónlistarmenn þessa lands sem og erlendis frá.

Tónleikar verða haldnir á nokkrum stöðum á Eyrarbakka, og má búast við nánu og notalegu andrúmslofti um allan bæ. Einnig verður andlegur markaður í Óðinshúsi í boði Kailash og Tehússins.

Tónleikar verða í Merkigili, Eyrarbakkakirkju, Húsinu, Sjóminjasafninu og á Rauða húsinu.

Meðal þeirra sem koma fram á hátíðinni eru Owls of the swamp, Phia og Mez Medallion, öll frá Ástralíu. Fjöldi innlendra listamanna koma einnig fram. Þar má nefna Ragnheiði Gröndal, Hafdísi Huld, Svavar Knút, Skúla Mennska, Halla Reynis og Kítón.

Af sunnlenskum tónlistarmönnum eða hljómsveitum má telja Þjóðlagasveitina Korku, Kristjönu Stefáns, Ómar Diðriks og Sveitasyni, My Sweet Baklava, Aragrúa, Jóhannes Erlingsson, Ragnheiði Blöndal og Jón Ágúst, Blokkflautukvartett Rangæinga og þau Unni og Jón Tryggva í Merkigili, UniJon, sem standa að hátíðinni.

Aðgangur á hátíðina er ókeypis en frjáls framlög eru vel þegin. Allar nánari upplýsingar má nálgast á www.bakkinn.com

Fyrri greinKompan opnar í Þorlákshöfn
Næsta greinIðunn stýrir klasasamstarfi