„Erum með áfast bros allan daginn“

Sunnlenska rafpopp hljómsveitin Kiriyama Family mun hita upp fyrir kanadísku indie hljómsveitina Arcade Fire í Laugardagshöll 21. ágúst næstkomandi.

„Það var víst þannig að meðlimir Arcade Fire fengu lista yfir íslenskar hljómsveitir og þau völdu okkur. Við erum að sjálfsögðu mjög glöð með það. Þau eru greinilega mikið smekkfólk á tónlist,“ segir Bassi Ólafsson, trommuleikari Kiriyama Family, hlæjandi í samtali við sunnlenska.is

Bassi og félagar hans í hljómsveitinni voru að vonum glöð með tíðindin. „Við vorum bara eins og litlir krakkar þegar við fréttum þetta, með áfast bros allan daginn í sitthvoru horninu. Þetta er mjög sætt fyrir suma í bandinu því Arcade Fire er búið að vera í miklu uppáhaldi og áhrifavaldur alveg frá unglingsárum.“

Aðspurður segir Bassi að þau geti ekki vitað það fyrirfram hvaða áhrif það hafi fyrir Kiriyama Family að hita upp fyrir hljómsveit eins og Arcade Fire.

„Það er eiginlega sama hvaða gigg það er, stórt gigg eins og þetta eða lítill pöbb út í bæ. Það þarf alltaf að vera „rétta“ fólkið á gigginu og þá getur ýmislegt gerst. Við förum alltaf með sama hugarfari að spila, við höfum engar væntingar nema við elskum að spila tónlistina okkar, bæði fyrir okkur sjálf og aðra. Allt annað er bara bónus,“ segir Bassi.

„En þetta gigg gefur okkur vissulega auka spark til að klára þriðju plötuna okkar sem er komin vel á veg og við erum mjög spennt að kynna nýtt efni fyrir fólki. Hver veit nema við tökum nokkur ný lög fyrir Arcade Fire,“ segir Bassi að lokum.


Arcade Fire.

Fyrri greinBrjálað stuð á Sumar á Selfossi
Næsta greinLokun Ölfusárbrúar flýtt