„Engin smá upplifun að vera þarna“

Stundin sem margir hafa kviðið í nokkurn tíma er komin, hátíðargestir á Roskilde Festival þurfa að pakka saman og fara heim – þetta er búið.

Vignir Egill Vigfússon skrifar frá Hróarskeldu:

Það lá greinilega eitthvað í loftinu á hátíðarsvæðinu í gær, á síðasta degi hátíðarinnar. Ég á ekki við hitann, lyktina af mis fersku hlandi eða annars konar lykt. Nei, það var mikil spenna fyrir tónleikum Bítilsins Sir Paul McCartney.

Goðsögnin steig á appelsínugula-sviðið klukkan 22 að staðartíma og hætti ekki fyrr en tæpum þremur tímum síðar. Á þessum tíma spilaði hann ásamt hljómsveit sinni um 40 lög frá sólóferli sínum og Wings-tímabilinu, en aðallega frá The Beatles.

Einn af rúmlega 100 þúsund gestum hátíðarinnar sem sótti þessa tónleika var Rangæingurinn Anna Hansen. „Sir Paul stóð svo algjörlega undir öllum væntingum og rúmlega það,“ sagði Anna þegar blaðamaður náði tali af henni eftir tónleikana. „Hann var með hrikalega flott band með sér, flugeldasýningu, tók alla helstu slagarana og heiðraði bæði John og George, engin smá upplifun að vera þarna,“ bætti hún við.

Lokadagur hátíðarinnar var sérstaklega heitur, hitinn yfir 30 gráður, og fólk nýtti sér alla skugga á svæðinu til þess að fá pásu frá sólinni. Anna viðurkenndi að hitinn hafi reynst þeim erfiður sem gistu á tjaldsvæðinu. „Það er alltaf jafn erfitt að vakna kófsveittur í 40 stiga heitu tjaldi þegar sólin byrjar að skína um 8-9 leytið á morgnana,“ sagði Anna.

Stöðugur straumur fólks hefur verið frá Hróarskeldu frá því í nótt, en hvað stendur svo eftir? Tuttugu-og-fimm þúsund lítrar af þvagi til bjórframleiðslu og rúmlega tvær milljónir evra sem greiddar verða til góðgerðarmála. Fyrir gesti hátíðarinnar standa sennilega eftir minningar, vonandi góðar.

Það að Anna væri hálf raddlaus, þreytt og sólbrennd skipti litlu máli, það var algjörlega þess virði fyrir upplifun síðustu daga. „Frábærir dagar að baki með góðum vinum og nokkrum nýjum vinum, í geggjuðu veðri og fullt af flottum tónleikum,“ sagði hamingjusöm Anna Hansen að lokum.

Meira frá Önnu Hansen og hátíðinni verður að finna í næsta tölublaði Sunnlenska Fréttablaðsins.

Fyrri grein93 fengu styrki
Næsta greinEkið á þrjú lömb í liðinni viku