Elísa Dagmar söng til sigurs

Elísa Dagmar Björgvinsdóttir, átján ára Selfossmær, sigraði í söngkeppni Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands sem haldin var í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi í kvöld.

Elísa Dagmar flutti snilldarlega nýjasta smell Adele, Hello, og verður því fulltrúi FSu í Söngvakeppni framhaldsskólanna sem haldin verður í vor.

Í 2. sæti urðu Bergrún Gestsdóttir, Arna Dögg Sturludóttir og Birta Rós Hlíðdal, tríó frá Þorlákshöfn og Hvolsvelli, en þær sungu lagið Jar of Hearts sem Christina Perri gerði vinsælt.

Þriðja varð Sæbjörg Eva Hlynsdóttir frá Hvolsvelli en hún flutti Prestley slagarann Can’t Help Falling In Love. Verðlaun fyrir bestu sviðsframkomu fengu Eysteinn Aron Bridde, Kristinn Sölvi Sigurgeirsson, Ernir Vignisson og Unnar Magnússon með frábærum flutningi á laginu .

Umgjörðin utan um keppnina var snilldarleg að vanda en þema hennar var suðrænt og seiðandi. Elsa Margrét Jónasdóttir, formaður söngkeppnisnefndarinnar, og hennar fólk á mikið hrós skilið, sem og allir þeir sem að keppninni komu. Iða var þéttsetin og boðið var upp á frábær skemmtiatriði, m.a. stigu BMX-Brós á stokk og einnig Sælan & Ingó Veðurguð.


Elísa Dagmar geislaði þegar hún flutti kraftmikla útgáfu af Adele-laginu Hello, af mikilli innlifun. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinJólaljósin skína skært í Árborg
Næsta greinMarín, Jana og Guðni taka forystuna