Einstakur tónlistarviðburður í Þorlákshöfn

Laugardaginn 5. október verða stórtónleikarnir „Popphornið“ haldnir í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn. Þar munu þrjár risastórar lúðrasveitir leika með þremur popphljómsveitum.

Tónleikarnir eru hluti af landsmóti Sambands íslenskra lúðrasveita en skipulag þess er í höndum Lúðrasveitar Þorlákshafnar að þessu sinni.

Á tónleikunum koma fram Jónas Sigurðsson, 200.000 naglbítar og Fjallabræður ásamt Sverri Bergmann en þeir eiga það allir sameiginlegt að hafa unnið með lúðrasveitum undanfarin ár. Að sögn Ásu Berglindar Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóri verkefnisins, verða lúðrablásararnir sem koma fram um tvöhundruð talsins svo það verður mikill gjörningur á hápunkti tónleikanna þegar allir munu að spila saman.

„Þegar stjórn Lúðrasveitar Þorlákshafnar fór af stað í að undirbúa landsmótið fannst okkur það þurfa að endurspegla á einhvern hátt þann mikla uppgang sem hefur verið hjá lúðrasveitum landsins síðustu misseri. Sá uppgangur hefur meðal annars einkennst af samstarfi lúðrasveitanna við ýmsa popptónlistarmenn,“ segir Ása Berglind.

Hún segir að niðurstaðan hafi því orðið sú að öllum lúðrasveitameðlimum landins yrði blandað saman og skipt í þrjár risastórar lúðrasveitir. „Þessar lúðrasveitir æfa svo með þremur popphljómsveitum og afraksturinn verður svo sýndur á stórtónleikum.“

Ása Berglind segir að þó að Lúðrasveit Þorlákshafnar standi fyrir tónleikunum og sjái um að skipuleggja þá, þá sé hún aldeilis ekki ein að verki. „Það hafa ótrúlega margir verið tilbúnir að leggja hönd á plóg. Allt frá því að baka pönnukökur til þess að eiga með kaffinu fyrir tónlistarmennina, setja upp svið á stærð við fjögurra herbergja íbúðarhús, bera stóla og svo margt fleira sem þarf að gera til þess að láta svona tónleika verða að veruleika. Svo er Rás 2 samstarfsaðili okkar og ætla að hljóðrita tónleikana,“ segir Ása Berglind.

„Þetta er einstakur viðburður og vil ég vil hvetja alla Sunnlendinga til þess að láta þessa tónleika alls ekki framhjá sér fara. Við í Lúðrasveit Þorlákshafnar erum stolt af því að geta boðið Sunnlendingum að sækja tónleika af þessari stærðagráðu heima í hlaði og sýnum það að þó svo Harpan sé stórkostlegt tónleikahús þá getum við litið okkur nær og notað það sem við eigum til þess að hrinda svona viðburðum í framkvæmd,“ segir Ása Berglind.

Tónleikarnir verða sem fyrr segir laugardaginn 5. október kl. 19:00 en húsið opnar kl. 18:30. Tónleikarnir verða í íþróttahúsi Þorlákshafnar og fer miðasala fram á midakaup.is.

Fyrri greinTuttugasta bók Þórðar í Skógum
Næsta greinJóga aldrei vinsælla