Einar velur framlag Þjóðverja

Einar Bárðarson og Helga Möller verða hluti af tuttugu manna alþjóðlegri dómnefnd sem velja mun framlag Þýskalands fyrir Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Portúgal í vor.

Einar greinir frá þessu á Facebooksíðu sinni í kvöld.

„Á fimmtudag ferðast ég til Berlínar til að taka þátt í lokakvöldi þýsku forkeppninar í Eurovision. Það verður ekki leiðinlegt að sinna þessu verkefni, hitta allt þetta fagfólk, taka þátt í þessari útsendingu og hjálpa 70 milljón manna þjóð að finna Eurovision framlagið sitt,“ segir Einar í færslu sinni.

Einar hefur áður verið í íslensku dómnefndinni í söngvakeppninni og er þekkur lagahöfundur, framleiðandi og tónleikahaldari. Helga er að sjálfsögðu ein dáðasta söngkona þjóðarinnar en hún var hluti af ICY tríóinu sem tók þátt í keppninni fyrir Íslands hönd árið 1986 með Gleðibankann.

Fyrri greinFSu náði fram hefndum – Mikilvægur sigur Hamars
Næsta greinBungubrekka fékk langflest atkvæði