„Ég er enn bara að æfa mig“

„Ég hef alltaf verið listræn, elskað að teikna, mála og lita en áhugi minn á förðun kviknaði þegar ég stalst í snyrtidótið hennar mömmu rúmlega tíu ára. Svo fékk ég leikhúsmálningu í jólagjöf þegar ég var tólf ára og hef verið óstöðvandi síðan.“

Þetta segir Selfyssingurinn Rannveig Óladóttir en förðunarmyndbönd hennar og myndir hafa vakið mikla athygli á samfélagsmiðlunum.

Rannveig, sem er átján ára gömul, segist aldrei hafa lært förðun en að hún æfi sig mikið bæði heima og í leikhúsinu Selfossi.

„Ég hef mikinn áhuga á að skapa list. Ég hannaði til dæmis alla förðun fyrir uppfærslu Leikfélags Selfoss á Bangsímon haustið 2015. Það tók tíma, pælingar og æfingu, en heppnaðist vel á endanum. Svo var auðvitað gaman að sjá lokaútkomuna á því sem ég hafði búið til,“ segir Rannveig.

Með rúmlega þúsund fylgjendur
„Eftir mikla umhugsun stofnaði ég Snapchat-aðgang sem er opinn fyrir almenning. Ég er einnig með like-síðu á Facebook og Instagram-síðu. Ég byrjaði á þessu í október síðastliðum og er komin með rúmlega þúsund fylgjendur. Á Snapchat sýni ég reglulega farðanir þar sem fólk getur fylgst með ferlinu og svo set ég alltaf inn myndir á Instagram,“ segir Rannveig en hún er mest í svokallaðri „special effects“-förðun og fantasíu-förðun. Inn á milli hefur hún svo gert venjulegar farðanir.

„Minn helsti draumur er að komast í einhvern rosa flottan skóla í kvikmyndaförðun. Þeir eru margir flottir skólar í London og Bandaríkjunum. Ég stefni auðvitað á þannig skóla.“

Æfingin skapar meistarann og allt það…
Nýlega tók Rannveig upp sérstakt förðunarmyndband fyrir förðunarkeppnina Nyx Nordic Face Awards og er haldin af snyrtivörufyrirtækinu Nyx. „Ég er í rauninni ekki komin inn í keppnina en þetta myndband ræður til um það hvort ég nái í topp 30. Ef það tekst þá kemur ný áskorun og niðurskurður við topp 15 og svo framvegis. Ég held bara í vonina um að komast í 30 manna hópinn en það er fullt af hæfileikaríku fólki sem er að taka þátt þannig keppnin er hörð.“

„Maður getur gert allt sem maður vill, æfingin skapar meistarann og allt það. Ég er enn bara að æfa mig og reyni að gera betur í dag en í gær,“ segir Rannveig að lokum.

Hægt er að fylgjast með verkum Rannveigar á Instagramsíðunni hennar Rannveigola og á Snapchat: rannveig.0la

Hér fyrir neðan er nýja förðunarmyndbandið á Instagram og þar fyrir neðan eru myndir af frábærum listaverkum eftir Rannveigu þar sem hún sjálf er fyrirsætan.

Fyrri greinMinningar-máltíð á Eyrarbakka
Næsta greinHamar tapaði fyrsta leiknum