Drepstokkur í fullum gangi

Drepstokkur, menningarhátíð ungmenna í Árborg, er í fullum gangi en hátíðin hófst á miðvikudag og stendur í eina viku.

Hátíðin er haldin í Pakkhúsinu í fjórða sinn og verður vikan uppfull af atburðum og skemmtilegum dagskrárliðum fyrir alla.

Eins og seinustu tvö ár verður útvarp Himnaríki 89,9 í kjallaranum í Pakkhúsinu. Blásið verður til tveggja ljósmyndakeppna, hefðbundinnar og Facebook farsímakeppni. Leikjaþemað verður hitað upp með Varúlfi á föstudagskvöldi og á mánudaginn verður síðan Spurningabomban sem er sambland af mörgum spurningakeppnum.

Leikjaþemað verður síðan toppað þegar gerð verður tilraun til að setja á laggirnar hinn nýja vinsæla þátt „Minute to win it“ eða Ein mínúta til sigurs. Sælgætisgerð Elsiear, uppblásin leikföng, grill og fleira skemmtilegt verður einnig í gangi og síðan endar þetta allt saman með flottum tónleikum miðvikudaginn 4. apríl.

Hátið er fyrst og fremst ætluð ungmennum 16 ára og eldri, liðir eins og tónleikarnir og úrslit ljósmyndakeppninnar eru að sjálfsögðu opnir öllum.
Orðið ungmenni er líka mjög víðtækt og engum er hent út úr Pakkhúsinu næstu daga.