Drangar á forvalslista Norrænu tónlistarverðlaunanna

Jónas Sigurðsson og félagar hans í hljómsveitinni Dröngum eru á 25 platna forvalslista fyrir Norrænu tónlistarverðlaunin sem veitt verða í Osló í febrúar á næsta ári, samhliða by:Larm tónlistarhátíðinni.

Norrænu tónlistarverðlaunin verða veitt í fjórða sinn á næsta ári en stofnað var til verðlaunanna árið 2010 og var Jónsi í SigurRós fyrsti sigurvegarinn. Sænski tilraunadjassistinn Goran Kajfeš hreppti svo verðlaunin fyrir árið 2011 og sænsku systurnar í First Aid Kit sigruðu í fyrra.

Fyrsti liðurinn í verðlaunaferlinu er að 25 platna listi er borinn undir tæplega 100 manns sem tengjast hinum íslenska tónlistarbransa með margvíslegum hætti. Sá hópur velur af honum tíu plötur sem verða kynntar sérstaklega ásamt sambærilegum tíu platna listum frá hinum fjórum Norðurlöndunum. Samnorræn dómnefnd setur svo saman tólf platna heildarlista upp úr þessum 50 plötum og verður hann gerður opinber í janúar. Alþjóðleg dómnefnd sér svo um að velja lokasigurvegarann af tólf platna listanum.

„Já ég veit, allt saman mjög samnorrænt og skrifræðislegt!“ segir Arnar Eggert Thoroddsen, formaður íslensku forvalsnefndarinnar, í fréttatilkynningu. Með honum í nefndinni eru Benedikt Reynisson, Trausti Júlíusson og Tómas Young.

Súpergrúppan Drangar var sett saman á þessu ári en auk Jónasar eru þeir Ómar Guðjónsson og Mugison í hljómsveitinni. Hljómsveitin gaf út plötu samnefnda hljómsveitinni í haust og hefur hún fengið frábæra dóma og viðtökur, auk þess sem þeir félagar hafa verið iðnir við spilamennsku til að kynna plötuna.

Hér að neðan eru Drangar í Stúdíó 12 hjá Ríkisútvarpinu og þar fyrir neðan er listinn yfir plöturnar sem komust á íslenska forvalslistann.

-Amiina – The Lighthouse Project

-Benni Hemm Hemm – Eliminate Evil, Revive Good Times

-Berndsen – Planet Earth

-Bloodgroup – Tracing Echoes

-Drangar – Drangar

-Emilíana Torrini – Tookah

-Grísalappalísa – Ali

-Hallur Ingólfsson – Öræfi

-Hjaltalín – Enter 4

-Íkorni – Íkorni

-Leaves – See You In The Afterglow

-Lay Low – Talking About The Weather

-Mammút – Komdu til mín svarta systir

-múm – Smilewound

-Oj Barasta – Friður

-Ólafur Arnalds – For Now I Am Winter

-Ólöf Arnalds – Sudden Elevation

-Samaris – Samaris

-Samúel Jón Samúelsson Big Band – 4 hliðar

-Sigur Rós – Kveikur

-Sin Fang – Flowers

-Snorri Helgason – Autumn Skies

-Strigaskór nr. 42 – Armadillo

-Tilbury – Northern Comfort

-Úlfur – White Mountain

Fyrri greinVestanstormur og éljagangur
Næsta greinGuðrún Inga haustmeistari