Daði Freyr gefur út sólóplötu sem Mixophrygian

Daði Freyr Pétursson, meðlimur sunnlensku rafrokk hljómsveitarinnar RetRoBot, gefur út sólóplötu undir nafninu Mixophrygian næsta miðvikudag, 2. september.

Til að byrja með kemur platan einungis út á netinu og verður hægt að heyra hana á síðum eins og Spotify, Soundcloud og Bandcamp, en einnig verður hægt að kaupa hana á iTunes.

Um er að ræða 14 laga plötu sem er samin, útsett, spiluð, sungin og mixuð af Daða sjálfum, ásamt því að systur hans Arna Lára og Sigrún Birna syngja eitt lag hvor. Einnig hefur hann fengið í lið með sér saxófónleikarann Phillip Carlsson og trompetleikarann Vale Schwarzbeck.

Platan er einskonar “consept-plata” og fjallar um mann sem öðlast þekkingu á alheiminum, vitund hans klofnar í sundur svo hann hefur nú tvö höfuð á sama líkamanum og á sama tíma sendist hann yfir í aðra vídd. Þar finnur hann ástina sem hann getur ekki deilt með sjálfum sér svo hann finnur leið til að breyta sér í tvær manneskjur, hvor með sinn eigin líkama. Þegar ástin getur ekki sætt sig við bara annan þeirra ákveða þeir að smíða geimfar og flýja þennan heim til að byrja upp á nýtt á öðrum stað.

Þann 2. september verða útgáfutónleikar á KEX Hostel en þar verður platan spiluð í heild sinni og sagan fyrir hvert lag verður sögð. Þetta verða einu tónleikar Mixophrygian á Íslandi á þessu ári þar sem Daði stundar nú tónlistarnám við DBs Music skólann í Berlín.

Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og það er frítt inn.

Fyrri greinAldingarður æskunnar opnaður á Sólheimum
Næsta greinStaðfest að eitrað var fyrir köttunum