Bieber á brókinni í sunnlensku baði

Nýjasta myndband kanadísku poppstjörnunnar Justin Bieber gæti reynst stærsta auglýsing sem Suðurland hefur nokkurn tímann fengið á alþjóðavettvangi.

Nýja lagið nefnist I’ll Show You og þar kýs hann að sýna aðdáendum sínum allar helstu náttúruperlur Suðurlands við Þjóðveg 1.

Bieber birti myndbandið á YouTube rás sinni í dag og nú þegar hefur verið horft á það yfir 1,1 milljón sinnum.

Kanadíska stjarnan fer gjörsamlega á kostum í myndbandinu, baðar sig Fjaðrárgljúfri, leikur lausum hala við Seljalandsfoss, stundar íhugun við Skógafoss, laugar ásjónu sína á bökkum Rangár og rennir sér á hjólabretti á flugvélaflakinu á Sólheimasandi. Þá er ónefnt magnað atriði þar sem Bieber veltir sér eins og griðungur í sunnlenskum mosa.

Miðað við frammistöðuna þá er jafnvel óhætt að kalla Bieber nýjasta landvætt Suðurlands. Enda er hann berg-risi á heimsmælikvarða í tónlistarbransanum.

Sjón er sögu ríkari, myndbandið er hér að neðan.

Fyrri grein„Viðtökurnar hafa verið mjög góðar“
Næsta greinÖlfusingar vilja friða Reykjadal