Aukatónleikar vegna fjölda áskorana

Á sunnudagskvöld voru tónleikarnir „Saga til næsta bæjar“ haldnir í Tryggvaskála á Selfossi. Það voru lagahöfundarnir Einar Bárðarson, Hreimur Örn Heimisson, Ingólfur Þórarinsson og Heimir Eyvindarson sem fluttu stærstu smellina sína og sögðu sögurnar á bak við lögin.

Færri komust að en vildu og það var uppselt á tónleikanna, gestir og flytjendur skemmtu sér konunglega.

Á milli þeirra félaga liggja um það bil sextíu af mest spiluðu lögum síðustu fimmtán ára og af nógu af taka. Lög eins og Farin, Dreymir, Vöðvastæltur, Bahama, Á þig, Flottur, Hvar sem ég fer, Árin, Lífið er yndislegt, Birta, Myndir, Gestalistinn, Drífa, Argentína, Spenntur og Ég sé þig fengu að hljóma ásamt fleirum og sögurnar á bak við tilurð þeirra voru sagðar og komu þá ýmis kurl til grafar.

Vart mátti á milli sjá hvort um væri að ræða tónleika eða uppistand en nokkuð ljós að enginn fór ósvikinn heim af þessum tónleikum.

Vegna fjölda áskorana hefur verið ákveðið að halda aukatónleika næstkomandi sunnudagskvöld, 20. október kl 21:00. Hægt er tryggja sér miða í Tryggvaskála í vikunni í síma 4821390.

Hægt er að fylgjast með Dægurlagafélaginu á Facebook

Fyrri greinVilja efla heilsugæsluna á Hvolsvelli
Næsta greinIðunn sigraði í nemakeppninni