Aron Ýmir í þremur efstu sætunum

Elías Hlynur Hauksson og Aron Ýmir Antonsson sigruðu í söngkeppni Menntaskólans að Laugarvatni, Blítt og létt, í síðustu viku. Aron Ýmir gerði gott betur og hafnaði einnig í 2. og 3. sæti.

Það var fullt hús í íþróttahúsinu á Laugarvatni þegar keppnin fór fram en auk nemenda ML voru viðstaðir á þriðja hundrað grunnskólanemendur sem sóttu skólann heim á kynningardegi hans og fjöldi annarra. Á dagskrá voru fimmtán keppnisatriði með ýmiskonar tónlist og flest atriðin voru stórskemmtileg og vel útfærð.

Starf dómnefndar reyndist harla erfitt, en niðurstaða náðist auðvitað að lokum. Þegar upp var staðið sigruðu þeir Elías Hlynur og Aron Ýmir ásamt Viðari Janusi Helgasyni en þeir fluttu Blackstreetlagið No Diggity.

Aron og Viðar urðu síðan í 2. sæti með Clapton-lagið Layla og enn kom Aron Víðir við sögu við flutning lagsins í 3. sæti, en þar flutti hann lagið You and I ásamt Margréti Björgu Hallgrímsdóttur.

Kynnar voru fimmtubekkingarnir Hafþór Ingi Ragnarsson og Ragnar Kristinsson og dómnefndina skipuðu Aðalheiður Helgadóttir, Karl Hallgrímsson og Heimir Eyvindarson.

Fyrri greinÓkeypis ljósleiðaratenging að öllum lögheimilum
Næsta greinHamar fékk skell á heimavelli