Alþjóðlegir tónleikar á Eyrarbakka

Tónlistamennirnir Siggi Björns og Pálmi Sigurhjartar verða á ferðinni lok maí og munu töfra fram nokkra tónleika. Fyrstu tónleikarnir verða haldnir að Stað á Eyrarbakka miðvikudagskvöldið 28. maí kl. 21.

Þessir töframann tónanna kynntust í Berlín hvar Siggi Björns hefur búið um árabil og spilað og sungið fyrir Evrópubúa. Pálmi var ytra við tónlist og námsráðgjöf þar sem Sólin sjálf var í skóla.

Pálmi kom á tónleika í Berlín þar sem Siggi var að spila og úr því að kappinn kannaðist við gestinn var hann drifinn á sviðið og það var ekki að því að spyrja að gleðin og stemningin flaut um salinn, fólk komst á annað tilverustig. Ekki síst þeir sjálfir sem smullu saman í að fremja tóna og gleði fyrir fólk.

Tveggja laga diskur
Þeir urðu vinsælir og héldu allnokkra tónleika á Berlínarsvæðinu, þar urðu til lög og sögur og nú eru tvö ný lög kominn á geisladisk. Tveggja laga diskar eru ekki á hverju borði og því skemmtileg tilbreyting. Merkast er þó að Skapti Ólafsson (Allt á floti Allsstaðar) syngur annað lagið á disknum. Einmitt núna um þessar mundir eru 70. ár síðan að hann hóf söngferil sinn. Svo er hann frændi Sigga Björns, þeir eru ættaðir úr eyjunum óteljandi á Breiðafirði.

Jólahjól á þjóðvegi
Í framhaldi af þessu þykjast glöggir menn og betri konur sjá að Siggi eigi eftir að syngja og segja sögur marga áratugi í viðbót. Fólki er samt ráðlagt að treysta ekki á að hann verði enn að eftir 40 ár og því best að koma á þessa tónleika. Virt vestfirsk spákona hefur sagt að tónleikarnir í Stað verði einstakir. Við missum ekki af því.

Ef einhver er að velta fyrir sér hver Pálmi er þá er hann einn af hinum mögnuðu Sniglabandsmönnum, sem á Jólahjóli, þrumuðu eftir þjóðvegi, í meira en einu lagi.

Falinn sannleikur
En sem sagt þessir tónleikar verða skemmtilegir, gömul og ný lög og fullt af skemmtilegum sögum sem allar eru sannar en komast samt helvíti nálægt því að menn efist um að þetta geti verið rétt. Svo verður líka að passa að góð saga gjaldi þessa andstyggilega sannleika sem enn finnst í skúmaskotum hjá heldra fólki til sveita.