Afmælishelgi á 800

800Bar á Selfossi fagnar þriggja ára afmæli á laugardagskvöld. Hjálmar og The Assassin of a Beautiful Brunette spila í afmælisveislunni.

„Hjálmar hafa einu sinni spilað áður á 800Bar og það var eitt af glæsilegustu kvöldunum frá opnun staðarins. Stefnan er sett á að endurtaka leikinn á laugardaginn,“ sagði Eiður Birgisson, veitingamaður, í samtali við sunnlenska.is. „Það verður engu til sparað í hljóðkerfi og tónlistarunnendur verða ekki sviknir af þessu kvöldi,“ sagði Eiður.

Hjálmar eru í fínu formi en þeir hafa verið í hljóðveri að undanförnu til að taka upp efni á sína sjöttu breiðskífu.

Strákarnir í The Assassin of a Beautiful Brunette opna kvöldið. Þessa sveit frá Selfossi þarf ekki að kynna en hún var valin hljómsveit fólksins í Músiktilraunum í fyrra og fyrstu lögum þeirra, Going Down og A Call For Help hefur verið feikivel tekið.

Það verður ýmislegt í boði á 800Bar í sumar ítrekar Eiður að staðurinn sé fyrir fólk á öllum aldri, löglegum skemmtanaaldri og uppúr. „Ég vil að lokum þakka viðskiptavinum okkar fyrir góða aðsókn undanfarin þrjú ár. Það er ýmislegt framundan í sumar og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi um hverja helgi.“

Fyrri greinFjögurþúsundasti nemandinn brautskráður
Næsta greinÖlvaður á Biskupstungnabraut