Afmælishelgi á 800Bar

800Bar á Selfossi fagnar sex ára afmæli um helgina. Barinn opnaði árið 2008 að Eyravegi 35 en eftir bruna þar í mars 2012 var hann settur á hjól um Suðurland áður en hann kom á sinn endapunkt í Hótelbyggingunni í miðbæ Selfoss.

“Um helgina fagnar 800Bar því að vera sprelllifandi á besta stað í bænum með alveg ótrúlega flottan kúnnahóp. Við reynum að bjóða upp á lifandi tónlist, plötusnúða eða einhverskonar tónlistaratriði allar helgar og reynum eftir fremsta megni að hafa frítt inn,” segir Eiður Birgisson, eigandi 800Bar, í samtali við sunnlenska.is.

Eiður segir að þegar staðurinn opnaði á nýja staðnum hafi takmarkið verið að ná sem breiðustum hópi viðskiptavina inn á staðinn. “Okkur hefur tekist það alveg þokkalega, það er fólk á öllum aldri sem stundar 800Bar og það má segja að hann sé nokkuð líkur gamla góða Pakkhúsinu,” bætir Eiður við.

800Bar er frægur fyrir einstakan mojito og núna um helgina verður bætt við svo um munar þegar sex nýjar bragðtegundir af mojito verða kynntar til leiks og verða þær á boðstólunum í allt sumar. Auk þess verða frábærir skemmtikraftar á sviðinu í kvöld og á laugardagskvöld og má þar nefna Friðrik Dór, Atla plötusnúð og DJ tvíeykið Þeyttur og Sýrður.

Í sumar verður barinn opinn öll fimmtudags-, föstudags- og laugardagskvöld. Húsið opnar alltaf kl. 21 og er Happy Hour af köldum og mojito til kl. 22 öll kvöld, allar helgar í sumar. Einnig geta nokkrir heppnir unnið fría mojito á Facebooksíðu staðarins.

Auk þess að reka 800Bar starfar Eiður við kvikmyndagerð en hann hefur áralanga reynslu í því fagi. “Það togar alltaf meira og meira í mann að snúa sér alfarið að því, en reksturinn á barnum gengur vel og þetta hefur verið mjög skemmtilegur tími. Ég myndi örugglega skoða það ef ég fengi gott tilboð í barinn,” segir Eiður að lokum. Hann vill þakka viðskiptavinunum fyrir komuna í gegnum árin og hvetur þá til að mæta um helgina og áfram í sumar.