800 Bar flytur inn DJ frá Dubai

Það stendur mikið til á 800 Bar á Selfossi um helgina en þá mun DJ Slim the Artist frá Dubai spila ásamt Sykur og RetRoBot.

“Þetta er hugsanlega allra stærsta verkefni sem 800 Bar hefur ráðist í og ef þetta gengur vel þá er þetta aðeins upphafið af því að flytja tónlistarfólk inn til landsins,” sagði Eiður Birgisson á 800 Bar í samtali við sunnlenska.is.

DJ Slim the Artist er heitasti plötusnúður Dubai en hann kemur til landsins á vegum 800 Bars, Pósthússbarsins á Akureyri og Vífilfells. Frítt verður inn í boði Burn og gott tilboð á barnum allt kvöldið.

Plötusnúðurinn Slim hóf feril sinn í Hip Hop tónlist árið 1991 sem rappari undir nafninu Mister LS og starfaði mikið með Coolio á sínum tíma. Á þrítugsaldri helltist raftónlistaráhuginn yfir hann og hefur hann þróast í svokallaða House tónlist.

Í dag notar Slim nýja tækni við spilun á tónlist sem kallast Controllerism, sem er frábrugðið hefðbundnum aðferðum. Nýja tæknin felst í að spinna saman hljóð til að setja saman live remix og upprunalega tónlist með því að notfæra sér Midi stýringar og flókinn búnað sem er einstök upplifun að sjá.

Hljómsveitin Sykur hefur löngum verið þekkt fyrir að fylla öldurhús og teiti af hlýju og kærleik. Sveitin hefur sent frá sér tvær plötur sem hafa fengið afbragðs dóma og tónleikar þeirra hafa fengið frábær ummæli í erlendum tónlistartímaritum.

Rúsínan í pylsuendanum er sunnlenska sveitin RetRoBot sem hitar upp þetta kvöld. RetRoBot spilar dansvæna elektróníska rokk músík sem ætti að geta fengið alla til að hrista sig. Nýjasta lagið þeirra ‘Electric Wizard’ hefur fengið frábærar viðtökur.

Þetta er frábær dagskrá fyrir alla þá sem elska dansgólfið.

Viðburðurinn á Facebook