Þægindi viðskiptavina aukin

Þessa dagana standa yfir miklar breytingar á 800 Bar á Selfossi. Útliti staðarins verður breytt að innan og þægindi viðskiptavina aukin til muna.

Stærstu breytingarnar eru þær að sviðinu verður snúið og settur upp skilrúmsveggur á milli dansgólfsins og stólaplássins fyrir framan barinn.

„Þessar breytingar verða ekki bara góðar fyrir þá sem vilja spjalla í næði heldur verður mikið betra sánd fyrir þá sem mæta til þess að dansa,“ sagði Eiður Birgisson, veitingamaður á 800, í samtali við sunnlenska.is. „Þessi rými verða aðskilin en einnig verður sviðið hækkað, veggir málaðir og bætt við lukkuhjóli á barinn svo eitthvað sé nefnt. Ef fólk hefur hugmyndir um hverju mætti breyta þá tek ég öllum hugmyndum vel og fólk má endilega koma því til mín í pósti eða á Facebook,“ sagði Eiður ennfremur.

800 Bar verður fjögurra ára á árinu 2012 og Eiður segir að tími hafi verið kominn á breytingar. „Það verður flott frumsýningarkvöld þegar breytingarnar verða kynntar. Ég get ekki gefið upp að svo stöddu hvað verður um að vera en við erum að tala um stórviðburð.“

Eiður segir að rekstur staðarins verði með svipuðu móti á næsta ári eins og verið hefur. Á fimmtudagskvöldum er yfirleitt trúbador eða DJ og föstudagskvöldin eru þekkt fyrir að vera fyrir fólk á öllum aldri en þá er yfirleitt alltaf trúbador og yfirleitt alltaf frítt inn.

„Ég vil einmitt þakka eldri aldurshópnum fyrir að vera búin að vera duglegri að mæta og í leiðinni hvetja þau til þess að vera enn duglegri við að mæta á nýju ári á breyttan og betri stað.“

800 Bar er opinn þrjú kvöld í viku og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi í hverri viku. Laugardagskvöld eru frátekin fyrir stórviðburði sem getur við ball með hljómsveit Geirmundar Valtýrssonar eða ball með Blaz Roca og allt þar á milli og þá verður hver og einn að meta hvað hentar fyrir sig.

Opnunartíminn mun breytast á næsta ári, opnað verður kl. 22 á á fimmtudags- og föstudagskvöldum og kl. 23 á laugardagskvöldum.

Þrátt fyrir að breytingar standi yfir í húsinu verður ekki slegið slöku við um áramótin því staðnum verður skipt upp til helminga og blásið til áramótapartýs. „Þar mun leka kampavín úr loftinu allt kvöldið og DJ Atli, einnig þekktur sem Skemmtanalöggan, mun halda uppi stemmningunni,“ segir Eiður sem býður upp á tvo fyrir einn á barnum þetta kvöld og frítt inn.

Á Facebook síðu 800 Bars er í gangi leikur þar sem gestir geta tryggt sér kampavínsfreyðandi flöskuborð.

Fyrri greinÓttast ekki að mjúkhýsið fjúki
Næsta greinMest lesnu fréttir ársins