Þrennir tónleikar Lay Low á Suðurlandi

Lay Low heldur þrjá tónleika með hljómsveit sinni á Suðurlandi á næstu vikum og hefur hún leik á Útlaganum á Flúðum í kvöld kl. 20.

Nýlega gaf hún út plötuna Brostinn strengur, sem hefur fengið frábærar viðtökur bæði almennings og gagnrýnenda.

Lay Low hefur spilað mikið erlendis á undanförnum árum en nú fylgir hún nýju plötunni eftir með því að ferðast um landið með hljómsveit sinni og það má segja að spilagleðin sé í hámarki.

Tónleikarnir á Útlaganum hefjast sem fyrr segir kl. 20 en á sunnudag, 27. nóvember, verða tónleikar í Árhúsum á Hellu kl. 20. Síðustu tónleikarnir sunnanlands í þessari tónleikaröð verða á Hvítahúsinu á Selfossi föstudaginn 16. desember kl. 21. Hljómsveitin Árstíðir kemur einnig fram á þeim tónleikum.

Auk Lay Low (Lovísu Elísabetar Sigrúnardóttur) eru í bandinu Pétur Hallgrímsson og Agnes Erna Estherardóttir og Selfyssingarnir Skúli Arason, Magnús Árni Øder Kristinsson og Sigurbjörn Már Valdimarsson.

Miðaverð er 2500 krónur og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Það er einnig hægt að kaupa miða í forsölu á www.laylow.is.