„Ætlaði ekki að hætta að titra”

Guðrún Birna Gísladóttir, frá Hveragerði, var kosin netstúlka sunnlenska.is auk þess að hljóta þriðja sætið í Ungfrú Suðurland í kvöld.

„Ég átti alls ekki von á þessu, þetta var óvænt ánægja. Ég er bara mjög ánægð með að hafa fengið þennan titil og þakka þeim sem kusu mig. Það var gaman að ná þriðja sætinu líka, ég ætlaði ekki að hætta að titra í krýningunni,” sagði Guðrún Birna létt í bragði í samtali við sunnlenska.is eftir keppni.

„Kvöldið í kvöld var alveg geggjað. Þetta var rosalega skemmtilegt og ég sé sko alls ekki eftir því að hafa tekið þátt. Undirbúningurinn var skemmtilegur og ekkert svo erfiður. Ég tók mataræðið í gegn og hreyfði mig meira og svo þurfti maður að skipuleggja námið,” segir Guðrún Birna en hún er ein þriggja sem keppa mun í Ungfrú Ísland þann 20. maí nk.

„Ég er bara mjög spennt og hlakka mikið til þess,” sagði Guðrún Birna að lokum.

Alls bárust 2.836 atkvæði í netkosninguna og hlaut Guðrún Birna 16% atkvæða í spennandi kosningu.