Ég vil deila með ykkur ákvörðun sem ég hef verið að velta mikið fyrir mér síðustu vikur. Á aðalfundi Framsóknarfélags Árborgar var ákveðið að halda prófkjör vegna næstu bæjarstjórnarkosninga og ég hef ákveðið að bjóða mig fram í 3. sæti á lista Framsóknar í Árborg. Tilkynnti ég þessa ákvörðun mína á félagsfundi hjá Framsóknarfélagi Árborgar.
Ákvörðunin var í raun ekki léttvæg en ég stýri Björg Advisors sem er alþjóðlegt ráðgjafafyrirtæki og það er starf sem krefst mikils tíma og orku. Af þeirri ástæðu tel ég best að styðja við komandi forystu fremur en að sækjast eftir oddvitasæti Framsóknar. Hlutverk Oddvita krefst mikillar vinnu og viðveru.
Ég hugleiddi hvort ég ætti einfaldlega að stíga til hliðar og draga mig út úr bæjarstjórnarmálum. Þegar ég fór fyrst í framboð setti ég mér markmið um að starfa í bæjarstjórn í átta ár og leggja mitt af mörkum fyrir samfélagið. Ég hef enn mikinn áhuga á bæjarmálum og trú á því að ég geti verið gagnlegur þó í öðru hlutverki en áður.
Ég tel að sú reynsla sem ég hef aflað mér á yfirstandandi kjörtímabili og til viðbótar sú reynsla sem ég hef í fjármálum, rekstri og stefnumótun, geti nýst vel, sveitarfélaginu til heilla. Á sama tíma er mikilvægt að gefa nýrri forystu rými og stuðning til að blómstra. Ég hlakka til að styðja við bakið á nýjum oddvita sem ég treysti til að leiða listann af krafti og heiðarleika með samvinnuhugsjónina að leiðarljósi.
Þriðja sætið er vissulega baráttusæti fyrir okkur í Framsókn en það er líka sæti þar sem reynsla og vilji til að vinna fyrir samfélagið nýtast vel.
Ég trúi að bestu niðurstöðurnar náist þegar reynsla og endurnýjun vinna saman. Þegar fólk styður hvert annað, deilir ábyrgð og vinnur að sameiginlegum markmiðum. Með þá hugmynd að leiðarljósi vil ég taka þátt í þessu prófkjöri og vona að ég megi njóta trausts ykkar.
Að endingu vil ég þakka öllum fyrir samstarfið á liðnu ári í Framsókn, öðrum flokkum, starfsmönnum sveitarfélagsins og íbúum og óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs.
Arnar Freyr Ólafsson
Bæjarfulltrúi Framsóknar í Árborg

