Við viljum efla grunnstoðir sveitarfélagsins

Húsnæðisskortur hefur verið að aukast á Íslandi og fasteignaverð hækkað samhliða því. Hátt fasteignaverð og óhentugt húsnæði á höfuðborgarsvæðinu hefur m.a. leitt til þess að fólk sækir til nágrannasveitarfélaga og er Ölfus eitt af þeim.

Í Þorlákshöfn hefur mikið verið byggt á stuttum tíma og eftirspurn eftir húsnæði mikil. Vanda verður til verks og gera hlutina vel. Nú hefur bæjarstjórnin kynnt að nýr miðbær muni rísa sem er ánægjuefni og hluti af því að stækka Þorlákshöfn. Við viljum auka aðkomu íbúa að stærri málum og viljum öfluga upplýsingagjöf og samtal við íbúa. Hér hefði verið gaman að sjá efnt til hönnunar- og hugmyndasamkeppni og íbúum leyft að kjósa um framtíðarútlit Þorlákshafnar.

Það ekki er nóg að byggja bara hús og fylla bæinn af fólki. Við viljum að þjónusta sveitarfélagsins sé byggð upp samhliða vaxandi íbúafjölda og að hún sé eftirsóknarverð. Við viljum ekki að bólan springi og að eftirspurnin eftir því að búa í Ölfusi dvíni. En hver er grunnstoð þess að sveitarfélagið geti veitt góða þjónustu? Það er jú starfsfólkið, mannauðurinn. Framfarasinnar vilja að vinnustaðir reknir af sveitarfélaginu séu lifandi, fjölbreyttir og skemmtilegir. Við viljum að starfsfólk sveitarfélagsins geti sótt til sinna stjórnenda án þess að byggðir séu veggir milli þeirra. Starfsfólk þarf að hafa rödd og finna að á þau sé hlustað og launin þurfa að vera samkeppnishæf, menntun og reynsla þurfa að skila sér á launaseðillinn.

Við viljum að sveitarfélagið sé hvatningaraðili í að starfsfólkið sæki sér endurmenntun og kynni sér nýjungar því samfélagið er í stöðugri þróun og alltaf verða til ný verkfæri sem okkur býðst í stóru verkfæratöskuna sem við söfnum í, í gegnum lífið. Við trúum því að aukin starfsánægja skili sér í eftirsóttum vinnustað sem eykur áhuga fólks á því að komast að í vinnu hjá sveitarfélaginu og þar með bætist þjónustan. Ef við missum frá okkur starfsfólkið þá missum við frá okkur verðmæta þekkingu og reynslu.

Við viljum því og ætlum að standa með starfsfólki sveitarfélagsins sem verður alltaf grunnstoðin, við byggjum ekki upp sveitarfélagið án þess.

Axel Orri Sigurðsson,
frambjóðandi í 11. sæti á lista Framfarasinna í Ölfusi XB

Fyrri greinFyrir börnin okkar!
Næsta greinÞátttöku- og íbúalýðræði