Mikil umræða hefur lengi átt sér stað um sorpmál á Íslandi. Í einstaka sveitarfélögum blossar þessi umræða upp, þegar gerðar eru breytingar á einstökum þáttum sorphirðu, s.s breyting gjalda, íláta eða hverskyns aðrar breytingar. Því miður fer þessi umræða oft út í tóma vitleysu og einkennist oft af vanþekkingu og staðreyndaleysu. Það liggur í hlutarins eðli að sorp og hverskonar úrgangur er mannanna verk. Við neytum einhvers, þ.e verslum inn, hvort heldur er í matinn eða kaupum okkur einhverja nýja hluti, s.s neysla okkar. Við förum í framkvæmdir, byggjum, breytum eða hvað annað og til verður úrgangur.
Hver skapar þennan úrgang? Jú, það erum við og því hljótum við að þurfa að sjá til þess að hann fari í þar til gerðan farveg, til að losna við hann, sem hlýtur lögum og reglum. Hvort heldur það eru landslög eða reglur einstakra sveitarfélaga. Sveitarfélögin í þessu tilviki, hafa síðan tekið að sér að skipuleggja þetta, fyrir íbúa sína, þ.e hvernig best er að losa okkur við úrganginn og sorpið, m.a með því hvernig flokkun skal eiga sér stað, hvernig ílát við notum, hvernig við erum losuð við þetta allt og síðan að gefa okkur tækifæri til að koma öðrum úrgangi en heimilissorpi, til losunar á þar til gerðum stöðum, s.s gámasvæðum eða grenndarstöðvum.
Breytum hugsunarhætti okkar
Allt kostar þetta sitt og því er allt gert til þess að veita þessa þjónustu á sem hagkvæmastan hátt og lagt upp með að við öll sem íbúar samfélagsins tökum þátt í því, með því að fara eftir ákveðnum reglum og skipulagi sem fyrir okkur er lagt. Við getum öll haft ákveðnar skoðanir á því hvort okkur finnst þær réttar eða hvort þær eigi að vera öðruvísi en samþykkt er. En á endanum er ábyrgðin hjá okkur, sem íbúum. Það eru jú við sem búum til þetta sorp og úrgang. Það getur ekki verið að þá eigi einhver annar að sjá um að losa okkur við hann, það sé einhver annar sem beri ábyrgðina á að hann verði til og ekki síst að það sé einhver annar sem eigi að borga brúsann. Við gleymum oft að líta í eigin barm og velta fyrir okkur hvað getum við gert til þess að minnka þennan úrgang og ekki síður, hvað getum við gert til að koma honum í réttan farveg og standa þannig skil á okkar hlutverki í þessu öllu.
Kostnaðurinn er okkar og hann fer eftir okkar hegðun
Það er ótrúlegt að vita til þess að það eru enn til íbúar sem taka ekki þátt í þessu verkefni, verkefni sem er okkar allra. Þeir flokka ekki heimilissorpið sitt, þeir vilja ekki flokka úrgang sinn, þegar honum er skilað á gámasvæði og grenndarstöðvar. Þeim er alveg sama og telja sig ekki bera neina ábyrgð á að þetta sé í lagi. Á sama tíma er kvartað yfir kostnaði við sorphirðu, tunnufjöldi sé fáránlegur, stærðir þeirra vitlausar, gámasvæði lítið opin o.s.frv. Og með því að taka ekki þátt í þessu sameiginlega verkefni okkar sjá þeir til þess, að aðrir sem gera hlutina rétt og þeir sjálfir, borga miklu meira í sorhirðugjöld en þarf að vera. Hvað ætla þeir að gera þegar farið verður að rukka hvern og einn íbúa eftir því hvað er í tunnunum þeirra? Þá borga þeir sem fara eftir reglunum minna en aðrir og spara sér þá fjármuni sem í dag fara í að niðurgreiða sorphirðuna fyrir þá sem vilja ekki vera með og fara eftir settum leikreglum. En þeir hinir sömu átta sig vonandi þá, á því hvað það kostar þá, að taka ekki strax þátt í settum leikreglum.
Tökum höndum saman og förum eftir settum leikreglum og gerum þetta saman, það er miklu skemmtilegra og ódýrara.
Helgi Sigurður Haraldsson,
íbúi í Sveitarfélaginu Árborg