Viðburður sem gleymist seint

Nú þegar nemendur Flóaskóla eru flognir á vit sumarævintýra langar mig að leiða lesendur inn í lítið tónlistarævintýri sem átti sér stað fyrr í vetur.

Föstudagurinn 28. október 2011 átti ekki að verða neinn venjulegur skóladagur. Þetta var dagurinn sem 40 krakkar í 2.-5.bekk í Flóaskóla höfðu beðið með mikilli eftirvæntingu síðan í byrjun september.

Ég hafði kennt minn fyrsta tónmenntatíma í Flóaskóla þetta haust þegar ég fékk tölvupóst frá Tónmenntakennarafélagi Íslands þar sem öllum tónmenntanemendum á landinu var boðin þátttaka í afmælishátíð félagsins. Hátíðin átti að fara fram í tónlistarhúsinu Hörpu tæpum tveimur mánuðum seinna og höfðu kennarar frjálsar hendur með það hvernig þeir myndu útfæra atriði sinna nemenda. Mér fannst þetta einstakt tækifæri fyrir börnin til að víkka sjóndeildarhringinn og láta ljós sín og hæfileika skína, fyrir utan það hversu skemmtileg minning það er að hafa farið í jafn merkilega ferð með skólafélögum sínum. Það stóð heldur ekki á áhuga nemenda þegar ég nefndi þetta við þau:“JAHÁ! GERUM ÞAÐ!“ auk þess sem ég hafði fullan stuðning fráfarandi skólastjórans okkar, hennar Kristínar Sigurðardóttur.

Upphófust nú miklar Hörpuæfingar og öllum komið í viðeigandi hópa eftir því hvaða hlutverki þeir gegndu í atriðinu, en markmið mitt var að hvert einasta barn, myndi spila á hljóðfæri. Nokkur börn spiluðu á þau hljóðfæri sem þau eru að læra á í Tónlistarskóla Árnesinga og mátti þar sjá selló, fiðlur, trompet, blokkflautur og þverflautu. Önnur spiluðu á trommur, þríhorn, tréspil, bjöllur og klarinettumunnstykki. Það var gaman að sjá hversu áhugasöm börnin voru, vandvirk og vinnusöm.

Eftir því sem nær dró tónleikadeginum fór sviðsskrekkur að gera vart við sig hjá einstaka nemendum og var einn þeirra kominn með dálítinn hnút í magann en sagðist ná að róa sig með því að horfa á Lukku Láka teiknimyndir. Annar nemandi stóð með kvíðatárin í augunum á tónleikamorgninum og lét ég hann fá tissjú með teiknuðum hjörtum á til að hafa í vasanum ef tárin færu að spýtast út á tónleikunum sjálfum.

Á seinustu æfingunni, tónleikamorguninn, sagði ég við krakkana að ýmislegt óvænt gæti gerst á svona stórum tónleikum og því yrðu þau að vera undir það búin að ég breytti sviðsuppsetningunni með engum fyrirvara. Þau æfðu sig þess vegna í því að fara eftir handabendingum mínum því það má auðvitað ekki tala neitt þegar maður er kominn upp á svið!

Skóladeginum lauk klukkan 14 og beið okkar stór rúta fyrir utan Flóaskóla. Hófumst við handa við að fylla rútuna af hljóðfærum, spenntum börnum og hjálpsömum foreldrum. Á leiðinni var tíminn nýttur til þess að æfa nokkur tónmenntalög og maula nesti og fyrr en varði renndum við upp að Hörpu og spenningurinn heldur betur farinn að magnast. Þegar búið var að flytja fólk og farangur inn í hús kom á daginn að okkur nýttist hljóðláta morgunæfingin í skólanum vel því enginn tími var til að æfa á sviðinu, sem við höfðum auðvitað aldrei áður séð og það eina sem við gátum gert fyrir tónleika var að láta alla krakkana ganga með hljóðfærin sín inn á sviðið og út aftur, svona bara til að þau hefðu einhverja hugmynd um hvernig þetta liti út allt saman. Svæðið sem við biðum á var heldur þröngt og hávaðasamt og verandi með öll hljóðfærin með okkur var alveg magnað að sjá hversu þolinmóð og umburðarlynd börnin voru.

En þá var komið að atriðinu okkar! Úff hvað við vorum spennt! Við létum öll börnin standa í langri röð sem var skipulögð í þaula miðað við hvar þau áttu að standa á sviðinu en æ, það vantaði eitt barnið! Hafist var handa við að leita og fannst það í tæka tíð. Börnin gengu eins og fagmenn inn á sviðið, færðu sig til hægri, vinsti, afturábak og áfram eins og handahreyfingar mínar bentu til. Eftir góða hneigingu og klapp frá áhorfendum hófst atriðið okkar og er erfitt að lýsa því hversu indælt það er að standa á sviðinu með 40 börn sem flest hafa aldrei spilað á hljóðfæri opinberlega áður, sjá einbeitinguna, finna samstöðuna og kraftinn sem leysist úr læðingi þegar allir leggjast á eitt. Börnin spiluðu og sungu af hjartans lyst, salurinn hló á réttum tíma eins og til var ætlast og allt gekk upp. Á leiðinni út heyrði ég einn snillinginn úr hópnum segja af innlifun:“Þetta var GAMAN“! Þegar búið var að koma öllu fyrir í rútunni héldum við á pizzastaðinn Ítalíanó í Kópavogi, en starfsfólkið þar tók einstaklega vel á móti hópnum sem var gríðarsvangur eftir þetta mikla ævintýri.

Það voru þreytt, en södd og sæl börn sem lögðust á koddana sína þetta kvöld. Þau munu líklega aldrei gleyma þessum viðburði sem tók margar vikur í undirbúningi og tókst svona vel. Svona lagað tekst ekki nema með dyggri aðstoð margra, hafið öll kærar þakkir fyrir; skólastjóri, foreldrar, myndatökumaður, samkennarar, skólar sem lánuðu hljóðfæri og tónlistarkennarar.

Kolbrún Berglind Grétarsdóttir, tónmenntakennari í Flóaskóla.

Fyrri greinFrágangur Björgunarmiðstöðvarinnar ekki í samræmi við leigusamning
Næsta greinTónleikahátíð sem vekur fólk til umhugsunar um náttúruna