Verður ein kona í bæjarstjórn Árborgar að loknum kosningum?

Samkvæmt skoðanakönnun á fylgi framboða í Sveitarfélaginu Árborg er meira en mögulegt að sú fráleita staða verði uppi eftir kosningar til bæjarstjórnar að einungis ein kona eigi þar sæti, af níu fulltrúum.

Þetta yrðu afleit úrslit og fullkomlega óásættanleg á tímum jafnréttis og byltingar í kvenfrelsismálum.

Til að koma í veg fyrir að þessi staða komi upp í bæjarstjórn Árborgar skora ég á kjósendur í sveitarfélaginu að merkja X við S og kjósa Samfylkinguna.

Í öðru sæti listans situr Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi, sem hefur staðið sig afar vel í sínum störfum fyrir sveitarfélagið og í þriðja sætinu er Klara Öfjörð Sigfúsdóttir, grunnskólakennari og námsráðgjafi.

Það yrði mikill fengur að tryggja þessum kraftmiklu konum kosningu í bæjarstjórn. Þannig er hægt að koma í veg fyrir það hneyksli í jafnréttismálum sem ein kona í bæjarstjórn sveitarfélagsins svo sannarlega yrði.

Tryggjum öflugum konum framgang í bæjarstjórn Árborgar með því að merkja X við S á kjördag.

Sigríður Ólafsdóttir,
fyrrverandi bæjarfulltrúi í Árborg.

Fyrri greinKristján kjörinn vígslubiskup í Skálholti
Næsta greinTveir í lífshættu eftir slys á Villingavatni