Vel heppnaður ársfundur Landbúnaðarháskóla Íslands

Ljósmynd/Aðsend

Landbúnaðarháskóli Íslands hélt ársfund sinn í dag á Hótel Hilton undir yfirskriftinni, Framtíð íslensks landbúnaðar – tækifæri og áskoranir. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir ávörpuðu fundinn. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra lagði áherslu á að sjaldan hefur verið mikilvægara að yfirfæra rannsóknir, nýsköpun og þekkingu yfir til samfélagsins. Til þess að ná árangri í þessa átt skiptir efling háskólana máli, meðal annars með auknu samstarfi þeirra á milli. Ráðuneytið setti á laggirnar verkefnið Samstarf háskólanna og var þátttaka allra háskólanna mikið ánægjuefni. Sérstök áhersla var á sjálfbærni og þar þurfa háskólarnir að vera leiðandi. Vel sást á niðurstöðum samstarfsins hvað möguleikarnir eru miklir og Landbúnaðarháskólinn tók til að mynda forystu í að hér á landi verði öflugar rannsóknir, nám og framleiðsla nýrra próteina í samstarfi við Háskóla Íslands.

Ljósmynd/Aðsend

Matvælaráðherra lagði áherslu á í sínu erindi að þekking, vísindi og rannsóknir eru grundvöllur framfara í landbúnaði og þar gegnir Landbúnaðarháskóli Íslands lykilhlutverki. Hún sagði eftir því tekið að Landbúnaðarháskóli Íslands er í mikill sókn og er að stíga ný skref og marka nýja sýn á ýmsum sviðum. Háskólinn hefur verið leiðandi í þekkingarsköpun og þekkingarmiðlun í landbúnað og matvælaframleiðslu og sóknartækifæri háskólans fjölmörg.

Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskóla Íslands fór yfir sókn háskólans og góðan árangur á undanförnum misserum. Reksturinn er í góðu jafnvægi og faglega starfið hefur eflst á öllum sviðum með nýjum og öflugum rannsóknar- og nýsköpunarverkefnum. Samhliða hefur stoðþjónustan styrkst. Landbúnaðarháskólinn hefur sótt fram og sótt af auknum krafti fé í innlenda og erlenda samkeppnissjóði og þannig markvisst aukið alþjóðlegt samstarf. UNIgreen er eitt dæmið um alþjóðlegan samstarfsvettvang sem Landbúnaðarháskólinn er öflugur þátttakandi í auk 7 evrópskra háskóla sem ýtir undir framsækið samstarf á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar. Nemendum hefur fjölgað á öllum námsstigum og framhaldsnámið hefur styrkst mjög með fjölgun meistara- og doktorsnema. Endurmenntun LbhÍ hefur aldrei verið öflugri en nú og fjölmörg ný námskeið litið dagsins ljós í samstarfi við hagaðila. Fremstur í flokki Endurmenntunar LbhÍ er Reiðmaðurinn þar sem hátt í 200 nemendur eru skráðir til leiks.

Dr. Professor Michal Zasada rektor lífvísindaháskólans í Varsjá hélt erindi þar sem hann ræddi tækifæri og áskoranir í Póllandi og í Evrópu á sviði landbúnaðar. Lífvísindaháskólinn í Varsjá er einn samstarfsháskóla Landbúnaðarháskóla Íslands í evrópska háskólanetinu UNIgreen sem styrkt er af Evrópusambandinu. Michal Zasada fór sérlega yfir stöðu mála í landbúnaði og þær fjölmörgu áskoranir sem atvinnugreinin stendur frammi fyrir, m.a. vegna loftslagsbreytinga, vaxandi skorts á vatnsauðlindum, minnkandi aðgengi að landrými, aðgengi að vinnuafli og óstöðugleika á mörkuðum. Sagði hann mikilvægt að efla samstarf, rannsóknir, nýsköpun og stuðning stjórnvalda til að mæta þessum áskorunum.

Ljósmynd/Aðsend

Björgvin Þór Harðarson bóndi á Laxárdal er stærsti kornræktandinn á Íslandi og framleiðir árlega um 800 tonn, sem er að mestu bygg en einnig hveiti og nepja. Hann hefur ráðist í ákveðnar breytingar í sínum búskap sem taka mið af markaðsaðstæðum hverju sinni, s.s. stærð markaðar og aðstæðum í tollaumhverfi. Að hans sögn eru mikil tækifæri í kornrækt á Íslandi og miklar væntingar til þess að greinin eflist verulega á næstu árum.

Í lok fundar stýrði Christian Schultze rannsókna- og alþjóðafulltrúi Landbúnaðarháskólans panelumræðum deildarforsetanna, Samaneh Nickayin, Þórodds Sveinssonar og Bjarna Diðriks Sigurðssonar. Þau töldu mikil framtíðartækifæri liggja í auknu samstarfi og sýnileika við hagaðila. Mikilvægi náms okkar hefur aldrei verið meira en nú og snýr að lausnum við áskorunum morgundagsins, ekki bara á íslandi, heldur í öllum heiminum. Við sérhæfum okkur í loftslagsmálum, matvælaframleiðslu og skipulagi á sjálfbæran máta og ætlum okkur stóra hluti í því að mæta framtíðar tækifærum og áskorunum á þessu sviði.

Landbúnaðarháskóli Íslands þakkar öllum sem tóku þátt í ársfundinum.

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinNammibræður slá í gegn
Næsta greinÆgismenn fóru stigalausir úr Laugardalnum