Vegna leitar- og björgunaraðgerðar við Ölfusá

Síðastliðinn fimmtudag, 13. nóvember voru björgunarsveitir í Árnessýslu kallaðar út vegna bíls sem hafði farið í Ölfusá við Hótel Selfoss.

Fjölmargir viðbragðsaðilar tóku þátt í fyrstu aðgerðum en meðal þeirra voru Lögreglan í Árnessýslu, Brunavarnir Árnessýslu, Sjúkraflutningar HSu, sérsveit Ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslan, björgunarsveitir, Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins og fleiri.

Aðgerð sem þessi er gífurlega mannfrek og sem dæmi um það má nefna að í heildina tóku um 130 björgunarsveitarmenn þátt í henni með um 30 tæki. Öll vinna björgunarsveitarmanna er unnin í sjálfboðaliðavinnu og ber að þakka vinnuveitendum þeirra fyrir að gefa okkar fólki frí frá vinnu til leitar og björgunar. Einnig viljum við, fyrir hönd stjórnar Björgunarfélags Árborgar, koma á framfæri þökkum til þeirra fyrirtækja og einstaklinga sem liðsinntu okkur með ýmsum hætti. Þessi aðilar voru Byggingarfélagið Laski, JÁ-verk, EB-Kerfi, Árvirkinn, Subway, Selfosskirkja og húsráðendur heimavistar FSu. Sérstaklega ber þó að þakka forsvarsmönnum og starfsfólki Hótel Selfoss sem að sá öllum viðbragðsaðilum fyrir kaffi og nesti um nóttina og hádegisverð á föstudeginum. Það er ómetanlegt fyrir svanga, blauta og þreytta leitarmenn að þurfa ekki að hafa áhyggjur af þessum málum meðan á aðgerð sem þessari stendur.

Það er ljóst að þegar á reynir stendur samfélagið þétt við bak þeirra viðbragðsaðila sem starfa hér í bæ og kunnum við því miklar þakkir fyrir, slíkt er ómetanlegt.

Fyrir hönd stjórnar Björgunarfélags Árborgar,
Inga Birna Pálsdóttir og Tryggvi Hjörtur Oddsson

Fyrri greinHanna valin í A-landsliðið
Næsta greinFæðingum fjölgar á HSu