Vallarsvæðið mun iða af lífi á laugardag

Guðjón Bjarni Hálfdánarson. Ljósmynd/Aðsend

Á morgun, laugardaginn 16. september kl. 14:00, spilar Selfoss lokaleik sinn í Lengjudeild karla árið 2023, þar sem liðið tekur á móti Vestra frá Ísafirði.

Lengjudeildin hefur verið virkilega spennandi þetta sumarið og var Selfossliðið lengi vel í baráttunni um að fara í umspil um sæti í Bestu deildinni 2024. Úrslitin í síðustu umferðum hafa ekki fallið með okkur og stöndum við frammi fyrir því að leikurinn á móti Vestra getur ráðið úrslitum um það hvort við spilum í Lengjudeildinni á næsta ári.

JÁVERK-völlurinn mun iða að lífi þennan góða laugardag, þar sem boðið verður upp á hamborgara og drykki fyrir svanga, fótbolta kahootquiz með Ingimar Helga Finnssyni, candyfloss frá Nammibræðrum ásamt skemmtilegum félagsskap með öðrum stuðningsmönnum Selfoss.

Veðurspá laugardagsins er ekki hliðholl stuðningsmönnum en látum rigninguna ekki aftra okkur heldur færa okkur kraft á sama hátt og áin okkar gerir daglega, eins og hagyrðingurinn Kristján Runólfsson komst svo vel að orði í ljóði sínu sem ber heitið Selfoss.

Hér er fögur byggð við brúna,
á bökkum fljóts sem ásýnd hefur,
frjósemd hina fornu túna,
farsælt mannlíf af sér gefur.
Áin sem um eilífð streymir,
ætíð vökvar rós á bakka,
okkar framtíð áfram teymir,
öll er byggðin henni að þakka.

Sem formaður meistaraflokksráðs karla hjá knattspyrnudeild Selfoss, langar mig að biðja alla íbúa sveitarfélagsins að mæta á JÁVERK-völlinn kl. 14:00 á laugardag og hvetja liðið til sigurs í þessum mikilvæga leik.

Áfram Selfoss, ég hlakka til að sjá þig á vellinum!

Guðjón Bjarni Hálfdánarson,
formaður meistaraflokksráðs karla

Fyrri greinQ&A sýning á Kulda í Bíóhúsinu
Næsta greinÁgúst skipaður forstöðumaður Lands og skógar