Það er alveg venjulegt við það að kíkja út í búð, fá sér kaffi eða borða á veitingastað hér í sveitarfélaginu. Við gerum þetta af vana, en það er meira undir en við gerum okkur oft grein fyrir.
Þegar við verslum í heimabyggð, hvort sem það er á Selfossi, Eyrarbakka, Stokkseyri eða annars staðar í Árborg, þá gerum við meira en að kaupa vörur. Við erum að halda samfélaginu okkar lifandi.
Þegar þú verslar í heimabyggð, heldur stór hluti af þeirri upphæð áfram að vinna fyrir okkur öll.
Rannsóknir sýna að þegar fólk verslar á sínu svæði heldur um 60–70% af peningunum áfram að snúast innan samfélagsins, í formi launa, innkaupa, skatta og þjónustu.
Þegar verslað er utan svæðis eða á netinu, þá hverfur mest af þeirri upphæð úr sveitarfélaginu.
Kaffibollarnir yfir árið sem þú kaupir hér í Árborg borga kannski fyrir gítarkennslu hjá ungling, nýtt net í mörkin á fótboltavellinum, dansnámskeið fyrir barn eða næstu kaffibolla sem einhver annar fær sér hjá sama stað.
Byggðastofnun hefur sýnt fram á að það með rannsóknum að það er bein tenging milli þess að hafa góðar og fjölbreyttar verslanir og þjónustu í heimabyggð og þess að fólk kjósi að búa þar. Þar sem þjónusta og verslanir hverfa, minnkar búsetuánægja og líkur á fólksfækkun aukast. En þar sem þjónustan er sterk og fjölbreytt, þar helst fólk og nýir íbúar bætast við.
Rannsókn Háskólans á Bifröst (2024) sýnir það svart á hvítu, þar sem þjónusta, verslun og menningarlíf eru til staðar, þar eykst ánægja fólks með að búa. Sveitarfélög sem bjóða upp á líflegan daglegan veruleika, með mannlífi, viðburðum og samveru, skapa meiri þátttöku og samstöðu.
Árborg er í mikilli sókn, hér fjölgar fólki, fyrirtækjum og viðburðum. En það að halda þessari fjölbreytni krefst þess að við notum hana. Ef við viljum halda áfram að hafa bakaríið, hárgreiðslustofuna, veitingastaðina og verslanir opnar, þá þurfum við að versla þar. Svo einfalt er það.
Það er eitthvað dýrmætt við það að mæta fólki sem maður þekkir, finna að bæjarandinn er lifandi og að hér sé raunverulegt mannlíf, ekki bara sendingar frá vinsælustu vefverslunum heimsins eða sömu fötin úr verslun hinum megin við heiðina sem eru á sama verði og hér heima.
Þannig að næst þegar þú ert að fara að panta á netinu, prófaðu að skoða hvað er til í verslunum í sveitarfélaginu áður. Þú ert ekki bara að styrkja fyrirtækin. Þú ert að styrkja vini, nágranna og framtíð samfélagsins okkar.
Verslum í heimabyggð. Það borgar sig!
Davíð Lúther Sigurðarson
Fyrirtækjaeigandi í Árborg

