Uppskeruhátíð í Hruna-mannahreppi 2011

Laugardaginn 10. september sl. var mikil uppskeruhátíð í Hrunamannahreppi.

Byrjaði hún á þakkargjörðar messu kl. 11, sem var vel sótt. Tveir kórar sungu við tilefnið kór eldriborgara og barnakór Flúðaskóla. Ræðuefni séra Eiríks Jóhannssonar, var eins og búast mátti við, sáning og uppskera. Maður uppsker því sem maður sáir. Ef maður sáir litlu, þá uppsker maður lítið. Ef maður sáir miklu, þá uppsker maður mikið. Var gott að byrja daginn á því að vera minntur á að með bæninni er hægt að biðja um allt sem maður þráir og þegar maður hefur eignast það, að gleyma ekki að þakka fyrir sig. Út á það gengur þessi dagur, að þakka fyrir þá uppskeru sem maður hefur fengið, eins að kynna fyrir samborgurum sínum afurðir sínar. Var margt í boði líkt og síðustu tvö skipti sem þessi hátíð hefur verið haldin.

Í félagsheimili okkar Hreppamanna var á boðstólum fjölbreyttur varningur sem ýmist má neyta eða njóta á einn eða annan hátt og margir kepptust við að kynna sína afurð og selja. Garðyrkjubændur voru með grænmeti sem sáð var síðast liðið sumar, kjötbændur með sínar afurðir, býflugnabændur með hunangsafurðir sínar, blómadropaframleiðandi sendi sína konu til að kynna og selja sína afurð og margir fleiri sem yrði of langt mál að þylja hér upp. En allir með gæða vörur frá sínu búi eða með í umboðssölu.

Greinarritari var þó meira við borð 9. bekkinga þar sem þeir voru að safna fyrir árlegri 10. bekkjar ferð, sem grunnskólinn á Flúðum stendur fyrir. Var ýmislegt sem þeir gátu boðið upp á eins og heimagert konfekt, ýmsar sósur sem unnar voru úr tómötum, tómata, kál, kúrbít og fleira. Margt var í boði þennan dag og gátu svangir valið um nokkra veitingastaði sem voru opnir.

Kaffi-Grund bauð upp á grænmetisrétti í tilefni dagsins og Minilik, eþíópíski veitingastaðurinn, var með tilboð bæði á laugardeginum og sunnudeginum og hægt var að fá pizzur á tilboði á Kaffi-Seli.

Ekki má gleyma þeim stöðum sem buðu upp á fría grænmetissúpu þennan daginn. En það var Matarsmiðjan sem bauð upp á grænmetissúpu sem framleidd var í eldhúsi staðarins og í leiðinni kynnt starfsemi smiðjunnar. Hótel Flúðir var einnig með fría grænmetissúpu og opið út í garðinn , þar sem fólk gat notið staðar og stundar í fallegu umhverfi. Bauð hótelið einnig upp á sérstakan matseðil sem samanstóð af afurðum úr sveitinni okkar.

Ekki var það bara matarkyns sem kynnt var fyrir gestum og gangandi, því trjágróður og blómarækt var einnig hægt að skoða í garðinum hjá Birni og Margréti í bláahúsinu á horni Smiðjustígs og Ljónastígs. Fengu þau verðlaun umhverfisnefndar 2009 fyrir fallegasta garðinn og voru þau vel að þeim verðlaunum komin.

Opin hús voru víða í þorpinu og bauð m.a. Anna Magnúsdóttir heim til sín þar sem hún sýndi handverk. Erla Björg Arnardóttir, sem á og rekur fyrirtækið Grænna land, bauð gestum að skoða það sem hún hefur upp á að bjóða. Var þar margt að sjá og hægt að fræðast um undur náttúrunnar.

Myndlistarsýningar voru víða, m.a. í húsnæði Grænna lands og í félagsheimilinu, þar sem myndir leikskólabarna héngu á veggjum fyrir foreldra, ættinga og annarra gesta að njóta. Leikur að list var með opið hús og var þar margt að sjá. Rabbi rósabóndi gaf gestum sem heimsóttu Leik að list, að smakka sallat sem hann er að rækta samhliða rósaræktuninni. Minjasafnið á Gröf var opið, þar er hægt að skoða ýmsa gripi sem notaðir voru til ræktunar hér á árum áður.

Golfáhugamenn þurftu ekki að láta sér leiðast því opna grænmetismótið í golfi, var haldið á Efra-Seli í tilefni dagsins.

Útlaginn lét sitt ekki eftir liggja því þar var boðið upp á markað, þar sem ýmislegt var í boði fyrri hluta dagsins og stóð Dúna Rut fyrir þeim markaði. Um klukkan hálf sex voru tónleikar sem greinaritari hélt ásamt gítarleikaranum Herði Friðþjófssyni og var ég bara nokkuð ánægð með aðsóknina. Ekki var annað að sjá en að tónleikagestir hafi notið tónleikanna og fengu að launum uppklapps, aukalag.

Enn seinna um kvöldið eða kl. 22.00 voru hinir rómuðu Stone Stones drengir með tónleika en þeir eru flestir Hreppamenn. Þeir tónleikar voru einnig vel sóttir enda frábærir tónlistarmenn að verki. Eru þeir á leið til Odda í Noregi 15.-18. september, að spila á blúshátíð. Óskum við þeim velfarnaðar.

Þá held ég að búið sé að telja upp alla þá sem buðu gestum og gangandi upp á afþreyingu, afurðir eða annað spennandi sem sveitin Hrunamannahreppur, hefur upp á að bjóða. Vona ég að þessi grein vekji áhuga fleirri sunnlendinga á að koma að ári og kíkja á okkar fallegu sveit, njóta þess sem hún hefur upp á að bjóða bæði landslag og afurðir. Hér er feikimikið úrval af hæfileikaríku fólki sem er margt til lista lagt, hvort sem það er í garðyrkju eða annarri yrkju.

Bið ég ykkur lesendur góðu, vel að lifa og njót þess sem lífið býður upp á.
Góðar stundir.

Kristín Magdalena Ágústsdóttir
Stoltur Hrunamaður (kona).

uppskeruhatid_fludir2011kma_954590666.jpg

Fyrri greinSkólphreinsistöð sett upp í haust
Næsta greinTalsvert minni afli í Veiðivötnum