Það er mikið fagnaðarefni að þann 4. febrúar næstkomandi verður Ungmennahús opnað í fyrsta sinn í Hveragerði fyrir ungmenni á aldrinum 16-20 ára í Hveragerði. Opnun ungmennahúss í Hveragerði eykur við heilbrigt, faglegt og skapandi félagsumhverfi og eflir frístundastarf fyrir ungmenni til 20 ára aldurs og fellur vel að ríkri áherslu Okkar Hveragerðis á að tekið verði betur utan um ungmennin okkar.
Fyrsta ungmennahúss opnunin verður 4. febrúar nk. Húsið verður opið frá kl. 19:30 – 22:00 og öll ungmenni á aldrinum 16-20 ára sem hafa útskrifast úr grunnskóla eru hvött til að kíkja við og njóta þeirra gæða sem starfsemi Frístundamiðstöðvarinnar Bungubrekku býður upp á.
Það er ekki síður fagnaðarefni að öflugt ungmennaráð Hveragerðis stendur að opnuninni, með stuðningi og í samvinnu við frístundamiðstöðina Bungubrekku, þar sem nú sem áður er unnið afar mikilvægt starf fyrir börn og ungmenni bæjarfélagsins.
Metnaðarfullt starf Frístundamiðstöðvarinnar Bungubrekku
Hveragerðisbær státar af afar metnaðarfullu starfi Frístundamiðstöðvarinnar Bungubrekku. Innan Bungubrekku er starfrækt öflug félagsmiðstöð þar sem ungmenni á aldrinum 10-16 ára geta varið frítíma sínum án áfengis og vímuefna. Þar fer fram faglegt starf með áherslu á gildi forvarna, sköpunar og mismunandi tegunda náms. Félagsmiðstöðvar eru einkar mikilvægur stuðningur við ungmenni á þessum aldri og hafa það hlutverk að stuðla að jákvæðum þroska unglinga og gera þau sjálfstæðari, bæði í verki og félagslegum samskiptum og gera þau hæfari til að takast á við lífið.
Stofnun ungmennaráðs Hveragerðisbæjar
Á kjörtímabilinu var komið á fót virku ungmennaráði sem er bæjarstjórn til ráðgjafar um málefni ungs fólks í Hveragerði. Seta í ráðinu er launuð og frístundamiðstöðin Bungubrekka fer með stuðning og utanumhald ráðsins og er þeim til halds og trausts. Það er afar mikilvægt að unga fólkið okkar hafi tækifæri til að láta rödd sína heyrast um þau málefni sem þau varða, og hafi þannig möguleika á að hafa áhrif á þá þjónustu sem þeim er veitt og umhverfi sitt að öðru leyti. Hægt er að fylgjast með starfi ungmennaráðsins á Instagram síðu þeirra og hvetjum við alla áhugasama til að fylgja þeim þar.
Ungmennahús fyrir ungmenni eldri en 16 ára
Engin félagsmiðstöð hefur verið starfrækt fyrir ungmenni eldri en 16 ára, þó að þörfin fyrir sambærilegan stuðning sé ekki síður mikilvægur á þeim mikilvægu mótunarárum þegar einstaklingar ganga í gegnum miklar breytingar með tilfærslum á milli skólastiga, oft breyttrar búsetu og umtalsverðra breytinga á félagslegu umhverfi. Í þessu ljósi hefur ákall verið um úrræði til að taka betur utan um ungmenni á aldrinum 16-20 ára. Það ákall var sérstaklega áréttað á fundi ungmennaráðs Hveragerðis nýverið þar sem ræddir voru möguleikar á opnun ungmennahúss á yfirstandandi vetri. Var þar ákveðið að halda opið ungmennahússkvöld í samráði við Bungubrekku. Í ljósi framangreinds hefur meirihluti bæjarstjórnar unnið að því að komið verði á fót ungmennahúsi fyrir einstaklinga á aldrinum 16-20 ára í Hveragerði þar sem hægt verði að veita áframhaldandi stuðning við ungmenni eftir 16 ára aldur og félagslegan vettvang fyrir samkomur og samveru ungmenna á þessum aldri. Okkar Hveragerði hefur lagt ríka áherslu á að slíkt ungmennahús verði opnað á yfirstandandi vetri í góðri samvinnu og samtali við Bungubrekku og ungmennaráð og verður það að veruleika með fyrstu Ungmennahússopnun
Ungmennaráðs Hveragerðisbæjar þann 4. febrúar nk.
Fyrsta opnun Ungmennahússins er skýr birtingarmynd þess sem er mögulegt með því að skapaður sé vettvangur fyrir metnaðarfulla aðkomu unga fólksins okkar að málefnum bæjarins, og eins og sjá má er mikill fengur að þeirra framlagi. Það er afar gleðilegt að sjá hversu öflugt starf er nú farið af stað hjá nýju ungmennaráði Hveragerðisbæjar og það verður spennandi að vinna með þeim áfram að bættum hag barna og unglinga í bæjarfélaginu.
Hvetjum ungt fólk til þátttöku!
Nú sem áður leitar Okkar Hveragerði leiða til að styðja enn betur við barnafjölskyldur í Hveragerði og hvetur ungmenni til að láta rödd sína heyrast áfram og taka þátt í samtali um leiðir til að skapa gæðaríkari þjónustu og umhverfi ungmenna í bæjarfélaginu. Við hlökkum áframhaldandi samtals og samvinnu og hlökkum til að sjá unga fólkið okkar valdeflast í sínu hlutverki!
Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
Bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis
Varaformaður bæjarráðs Hveragerðisbæjar

