Um áramót í töluðum orðum

Um áramót lítur maður gjarnan til baka og fer yfir farinn veg. Árið 2023 var um margt skelfilegt ár hvort sem horft er til lands- eða heimsmála. Ríkisstjórn Íslands á fallanda fæti, verðbólga brennir upp kaupmáttinn og húsnæðismarkaðurinn er við frostmark.

Ráðaleysi, þreyta og fýluleg ásýnd ríkisstjórnarinnar er áberandi. Orðin ein óvinsælasta ríkisstjórn lýðveldisins frá upphafi mælinga, óvinsælli en skjaldborgarríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu á dánarbeði hennar. Fáir vonast til að ríkisstjórnin lifi kjörtímabilið. Þeir sem þess helst óska eru ráðherrarnir sem skiptu upp ráðuneytum til að sem flestir meðlimir sinna flokka fengju einkabílstjóra og aðra bittlinga. Um bittlingana þarf ekki að hafa mörg orð. Sá hlægilegasti var boðsferðin á kostnað skattgreiðanda og loftslagsins þegar að áttatíu vinum og vandamönnum var flogið í þotum til Dubai á COP28. Hvítvín og humar í forrétt, skattgreiðendur í aðalrétt og eftirrétturinn, klapp á bakið elsku vinur, snæddur á glersvölum háhýsa.

Um heimahagana
Sveitarfélagið Árborg hefur verið í örum vexti mörg undanfarin ár sem krefjandi hefur verið fyrir sveitarstjórnir okkar á hverjum tíma að takast á við. Það kostar að vaxa hratt. Fyrir hverja íbúð sem tekin er í notkun í sveitarfélaginu þarf Sveitarfélagið Árborg að leggja út a.m.k. 20 milljónir króna í innviðauppbyggingu, um 8 milljónir króna á íbúa. Og fyrir hverja 1.000 íbúa gerir það þá um átta milljarða króna. Árið 2015 tók íbúafjöldinn vaxtarkipp, fór úr um 8.000 íbúum í tæpa 12.000 íbúa í lok þessa árs, fjölgun um 4.000 íbúa sem gerir þá 32.000 milljónir króna sem leggja þarf til innviðauppbyggingar. Gatnagerð, bygging leik- og grunnskóla, íþróttamannvirkja og veitumannvirkja auk orkuöflunar kostar sitt. Auðvitað koma líka inn tekjur í staðinn s.s. gatnagerðargjald, útsvar og ýmis þjónustugjöld. Samt sem áður verða útgjöldin hærri fyrst um sinn en tekjurnar sem renna í sveitarsjóð.

Svf. Árborg er í þeirri einstöku stöðu og hefur verið um langa hríð að vera eftirsóknavert búsetusvæði líkt og sjá má þegar að hlutfallsleg fjölgun íbúa í Svf. Árborg er borin saman við landsmeðaltal.

Því fylgja eins og áður segir vaxtarverkir en einnig hefur það kostað sveitarfélagið að vera nokkurskonar frávik frá öðrum sveitarfélögum og passa ekki í meðaltalsútreikninga jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem úthlutar hátt í eitt hundrað milljörðum á ári til sveitarfélaga landsins skv. ákveðnu módeli sem sagt er vera hálfgert black box. Svf. Árborg passar ekki í reiknimódelið og hefur aldrei gert og því fengið minna úthlutað úr jöfnunarsjóðnum en ella ef þetta blessaða módel tæki tillit til sveitarfélaga í örum vexti, von er þó til þess að það breytist á næstunni. Sveitarstjórn okkar ber ábyrgð á því að fylgjast vel með framvindu þeirra mála og láta til sín taka á þeim vettvangi okkur íbúum til hagsbóta.

Að lokum vil ég þó segja að árið 2023 var ekki slæmt að öllu leyti því veðurstöðin á Selfossi komst á veðurspákort Veðurstofu Íslands á árinu og óska ég íbúum sveitarfélagsins til hamingju með það. Ég óska íbúum sem og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir þau liðnu. Ég trúi því og vona að árið 2024 verði farsælt fyrir landsmenn alla og spái því að veðrið hér á Selfossi verði það allra besta sem mælst hefur.

Tómas Ellert Tómasson,
byggingarverkfræðingur og fyrrv. bæjarfulltrúi í Svf. Árborg

Fyrri greinHrædd um að mamma pósti ljótri mynd af mér á Facebook
Næsta greinStórt sumarhús eyðilagðist í eldsvoða