Tryggjum góða heilsu eldri borgara  

Jóhann Friðrik Friðriksson. Ljósmynd/Aðsend

Aldrei áður í sögu mannkyns höfum við jarðarbúar geta vænst þess að ná jafn háum aldri og við gerum nú. Skilningur okkar á hugtökum á borð við elli og öldrun hefur tekið breytingum undanfarna áratugi og fólk nær hærri aldri áður en það sjálft skilgreinir sig sem aldrað.

Þetta kemur til bæði vegna hækkandi meðalaldurs en einnig vegna þess að í dag er hægt að lifa lengur við góða heilsu. Nýr raunveruleiki blasir við þar sem 65 ára einstaklingur býr við ámóta heilsufar og fertugur einstaklingur gerði fyrir einhverjum áratugum síðan.

Í dag upplifa margir eldri borgar sig líkamlega hrausta og er sú þróun jákvæð. Alþjóða heilbrigðisstofnunin spáði því í skýrslu árið 2018 að árið 2020 yrðu jarðarbúar yfir sextugu í fyrsta sinn fleiri en fjöldi fimm ára barna í heiminum. Árið 1950 voru 8% Íslendinga yfir 65 ára aldri, það hlutfall hefur hækkað verulega og eru þeir 14% þjóðarinnar í dag. Áætlað er að þessi hópur fari enn vaxandi og árið 2040 verða 22% þjóðarinnar eða 88 þúsund einstaklingar eldri en 65 ára. En langlífi og góð heilsa fara ekki alltaf saman og ekki vænlegt að ráðgera að allir þeir sem tilheyra þessum vaxandi hópi upplifi góða heilsu. Nauðsynlegt er að mæta þeim áskorunum sem fylgja þessari þróun og tryggja fjárhagslegt öryggi og þjónustu við eldri borgara til framtíðar.

Framsóknarflokkurinn á að leiða þann málaflokk og leggja áherslu á að innleiða heilsueflingu fyrir alla eldri borgara á Íslandi í samstarfi við Embætti landlæknis, íþróttahreyfinguna, heilbrigðiskerfið og þjónustuaðila. Sú stefna mun leiða af sér aukin lífsgæði eldri borgara, draga úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu og hafa jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Ég er tilbúinn í þessa vinnu fái ég brautargengi til þess að hefjast handa.

Jóhann Friðrik Friðriksson,
lýðheilsufræðingur og frambjóðandi í 2. sæti í prófkjöri Framsóknar sem fram fer 19. júní. 

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri grein„Spennandi tímar framundan“
Næsta greinGrenlækur skraufaþurr á 11 km kafla