Tryggjum framtíð hestamennskunnar í Árborg

Það er ánægjulegt að nú skuli loksins séð fyrir endann á áratugalangri óvissu hestamanna á Selfossi um framtíð hesthúsahverfisins. Nýlega var hafin vinna við deiliskipulag sem mun ná yfir alla núverandi hesthúsabyggð auk viðbótarlandsins sem bættist við hverfið á síðasta ári eftir að landaskiptisamningar náðust við landeigandan.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hversu mikil neikvæð áhrif það hefur haft fyrir uppbyggingu hesthúsahverfisins sem þessi óvissa hefur haft. Nú þegar búið er að festa það í sessi um ókomna tíð skapast mörg tækifæri til að byggja upp af metnaði til langrar framtíðar.

Vandað skipulag og fyrirhugaðar framkvæmdir
Það er ákaflega mikilvægt að vel takist til við vinnu á deiliskipulagi fyrir svæðið og hugað sérstaklega að öryggi hestamanna. Gott aðgengi að reiðleiðum og uppbyggingu á svæðinu svo sómi sé af. Þessi vinna þarf að fara fram í fullu samráði og með vilja þeirra sem nýta svæðið og þekkja best hvaða áherslur þarf að hafa í huga til að búa til góða hesthúsabyggð. Með það í huga var skipulagshópurinn sérstaklega valinn úr hópi hestafólks í Sleipni sem nú vinnur með skipulagshöfundum að gerð deiliskipulagsins.

En það er ekki nóg að skipuleggja, það þarf líka að framkvæma. Rétt eins og við lögðum mikla áherslu á að tryggja framtíðarstaðsetningu svæðisins á kjörtímabilinu munum við tryggja uppbyggingu á svæðinu í kjölfarið á deiliskipulagsvinnunni.

Í því samhengi má nefna endurgerð á gatnakerfinu ásamt því að lagðar verða nýjar götur. Allt svæðið tengt við heitt vatn ásamt rafmagni og köldu vatni og gjaldskrá gatnagerðargjalda endurskoðuð til að örva enn frekar uppbyggingu nýrra hesthúsa og annarra aðstöðu sem nauðsynlegt er að hafa í slíku hverfi.

Klárum verkið og fylgjum því eftir
Við höfum sýnt það á líðandi kjörtímabili að við viljum gera hestamennsku í sveitarfélaginu hærra undir höfði. Hestamennska ekki bara áhugamál fárra heldur er um stórt samfélag fólks að ræða og gildi hestamennsku sem æskulýðs- og íþróttastarfs er óumdeilt.

Öryggismál hestafólks skiptir okkur líka miklu máli og því hófum við m.a. viðræður við Vegagerðina um endurbætur meðfram Gaulverjabæjarvegi til að tryggja öryggi og hafa þær viðræður hafa skilað góðum árangri sem nauðsynlegt er að fylgja eftir og koma í framkvæmd.

Á síðustu 4 árum hefur meira gerst í málefnum hesthúsahverfisins á Selfossi en í yfir 20 ár þar á undan.

Við í Samfylkingunni lítum svo á að hestamennska sé mikilvægur hluti af okkar samfélagi og geri sveitarfélagið okkar að aðlaðandi og góðum búsetukosti. Því er mikilvægt að styðja af fullum krafti við uppbyggingu og þróun á hesthúsahverfanna á Selfossi, Stokkseyri og Eyrarbakka í sveitarfélaginu Árborg á komandi kjörtímabili. Það má treysta því.

Sigurjón Vídalín Guðmundsson og Björgvin G. Sigurðsson,
skipa 2. og 3. sæti S-listans í Árborg.

Fyrri greinSérstaða Áfram Árborgar
Næsta greinIngimar ráðinn aðstoðarþjálfari