Tryggjum framtíð Garðyrkjuskólans að Reykjum

Álfheiður Eymarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Þegar Garðyrkjuskólinn að Reykjum í Ölfusi tók til starfa árið 1939 endurspeglaði hann nýsköpun þess tíma.

Upp úr aldamótunum 1900 fóru einstaklingar og áhugamannafélög að gera ýmsar tilraunir við ræktun og farið var að huga sérstaklega að nýtingu heita vatnsins til að hita upp gróðurhús. Erlendir garðyrkjufræðingar, menntaðir í fræðunum í nágrannalöndum okkar, komu og lögðu okkur lið í þessari frumkvöðlastarfsemi. Næstu áratugina spruttu upp garðyrkjustöðvar þar sem heitt vatn var að fá auðveldlega úr jörðu. Og þá myndaðist eftirspurn eftir garðyrkjufræðingum. Alþingi sýndi þá framsýni að samþykkja stofnun skólans árið 1936 og lagði til þess jörðina Reyki í Ölfusi.

Þetta var mikið brautryðjendastarf og ótrúlegur árangur frumkvöðla og framsýns fólks að koma þessu merkilega starfi í gang og Garðyrkjuskólanum á koppinn. Garðyrkjuskólinn hraðaði þróun garðyrkju á Íslandi og ræktunin á Reykjum varð gríðarlega fjölbreytt. Gróðurhúsum fjölgaði jafnt og þétt og tilraunir með ýmsar tegundir blóma, grænmetis og ávaxta. Að Reykjum er fullbúið tilraunahús sem garðyrkjubændur studdu með veglegum hætti. Garðyrkjuskólinn að Reykjum er dæmi um vel heppnað samstarf menntakerfis og atvinnugreinarinnar.

Garðyrkjuskólinn stendur fyrir starfsmenntanámi í garðyrkju á framhaldsskólastigi. Þar er hægt að læra skrúðgarðyrkju, garðyrkjuframleiðslu, skógrækt, ylrækt, blómaskreytingar, náttúru- og umhverfisnám. Þetta er mjög sérhæft nám og á ekki samleið með hefðbundnu framhalds-, iðn- og tækniskólunum okkar. Nemendur af öllu landinu geta stundað fjar- og staðnám og aflað sér verklegrar færni og þekkingar á þessum sérsviðum skólans.

Þetta er mikilvægt hlutverk sem Garðyrkjuskólinn gegnir í góðri samvinnu við atvinnulífið. Það er því mikilvægara þegar við horfum til þess að nýta landið okkar betur og ganga minna á auðlindir, minnka kolefnisspor, ma með því að borða grænna og vænna. Þarna er mikill mannauður með sérþekkingu á garðyrkju í víðu samhengi og nýtt hana til að uppfræða nemendur en einnig til að vinna með atvinnugreininni.

En stjórnvöld ákváðu árið 2004 að skólinn ætti samleið með og skyldi fella undir Landbúnaðarháskóla Íslands. Starfsmenntanám á framhaldsskólastigi og háskólanám fer varla vel saman. Þetta hefur enda reynst óheillaspor sem hagaðilar, sérfræðingar innan skólans, atvinnugreinin í heild og velunnarar skólans vöruðu við.

Í upphafi var meiningin að flytja starfsmenntanámið af Reykjum og á Hvanneyri. Í hagræðingarskyni. Því var hætt nánast öllu viðhaldi á byggingum Garðyrkjuskólans á Reykjum en starfið þar heldur áfram, námið hefur enn ekki verið flutt og starfsfólk, kennarar og sérfræðingar þar hafa sýnt að starfsnám í garðyrkju snýst ekki um annað og meira en byggingar í toppstandi. Síðan 2004 hefur nokkur styr staðið um Garðyrkjuskólann, litið á hann sem olnbogabarn innan LBHÍ og enginn skilningur virðist ríkjandi á þessu merkilega starfi. Ekki af hálfu LBHÍ, ekki af hálfu menntamálaráðuneytis, og alls ekki af hálfu menntamálaráðherra. Ráðherrar kjördæmisins láta sig málið litlu varða en halda langar ræður um velvilja. Og framtíð skólans er enn í lausu lofti.

Árið 2021 er staðan þessi:
Garðyrkjuskólinn að Reykjum er ekki skóli heldur deild innan LBHÍ.
Eftir þetta skólaár flyst námið í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.
Þetta er gert í trássi við vilja sérfræðinga Garðyrkjuskólans, velunnara hans og atvinnugreinarinnar Engin aðkoma sérfræðinga Garðyrkjuskólans né fulltrúar atvinnugreinarinnar hafa verið með í ráðum, hvorki hjá ráðuneyti né FSu.
Þessi vinnubrögð og þetta 17 ára skeytingarleysi er til skammar. Það er strembið að vera brautryðjandi og koma upp nýsköpun, starfsmenntun og rannsóknum í garðyrkju. En það er auðvelt að rífa það upp með rótum.

Það þarf að taka utan um þetta mikilvæga brautryðjendastarf Garðyrkjuskólans að Reykjum sem hefur verið byggt upp síðan árið 1939. Skólinn er miðstöð rannsókna og nýsköpunar í garð- og skógrækt. Flönum ekki að neinu og tryggjum framtíð Garðyrkjuskólans að Reykjum þar sem hann er. Fjárfestum í húsakosti, gróðurhúsum, tilraunastofum, landi, sérfræðingunum og nemendum.

Álfheiður Eymarsdóttir
Oddviti Pírata í Suðurkjördæmi

Fyrri greinSASS stofnar þekkingarsetur um úrgangsmál
Næsta greinTvö heimili verðlaunuð fyrir snyrtilegt umhverfi