Tómas Ellert: Konur og ungt fólk!

Heil kynslóð hefur verið skilin eftir nánast eignalaus, með skuldir langt umfram eignir og tekjur hrökkva ekki fyrir framfærslu og niðurgreiðslu lána.

Ekki voru nýtt tækifæri til almennrar skuldalækkunar með því að festa vísitöluna 2009. Á að banna verðtrygginguna? eða auka vægi óverðtryggðra lána þannig að fólk hafi raunverulega valkosti?
Markmið nýrrar ríkistjórnar
Augljóst er að markmið nýrrar ríkisstjórnar verður að forgangsraða í þágu fjölskyldnanna í landinu og byggja hér upp hagsæld að nýju. Við þurfum að tryggja fólki atvinnutækifæri sem eru samkeppnishæf við tækifæri fólks í nágrannaþjóðunum.
Stjórnvöld mega ekki búa til fjandsamlegt umhverfi fyrir fyrirtæki með þeim skattahækkunum sem þau hafa gert. NB! Við skattleggjum okkur ekki út úr vandanum.
Forgangsröðunin er og hefur verið röng sem sést best á því að nú í upphafi árs telur forsætisráðherra brýnasta verkefnið fyrir þinglok vera að umbylta stjórnarskrá Íslands.
Vandinn er flókinn og að minnsta kosti tvíþættur. Annars vegar sá forsendubrestur sem allir húsnæðiseigendur urðu fyrir við bankahrunið og hins vegar að finna framtíðarfyrirkomulag húsnæðismála hér á landi sem er sambærilegt við það sem aðrar þjóðir búa við.
Forsendubresturinn
Við urðum öll fyrir sama forsendubrestinum. Þannig hafa margir þeirra lántakenda sem tóku gengistryggð lán fengið lausn sinna mála í gegnum dóma Hæstaréttar, en eftir sitja aðrir t.d. þeir sem tóku verðtryggð lán hjá Íbúðalánasjóði. Óvissan er enn alltof mikil þar sem fjöldi dómsmála er ekki lokið og hreint fáránlegt að ríkisstjórnin hafi ekki fallist á tillögu sjálfstæðismanna á Alþingi strax árið 2009 um að þessi mál fengju flýtimeðferð í gegnum dómskerfið.
Við verðum fyrst að koma hjólum atvinnulífsins af stað af fullum krafti. Skapa verðmæti. Við verðum að reikna og greina hver vandinn raunverulega er. Fá alla okkar bestu sérfræðinga að þessu borði með okkur í stjórnmálunum og finna raunhæfar lausnir og koma þeim í framkvæmd. Hætta að sópa vandanum undir teppið og horfast í augu við hann. Svo þarf að taka ákvarðanir – sumar verða án efa erfiðar. Er betra að tugir þúsunda Íslendinga fari í gjaldþrot eða er betra að gera skuldir upp með veðsettum eignum og afskrifa afganginn? Bjóða síðan leigu – jafnvel með föstum kauprétti? Tómar byggingar út um allt hjálpa engum. Fjölskyldur og einstaklingar sem losnað hafa undan skuldaklafa eru líklegri til að skapa verðmæti og stuðla að betra efnahagslífi, betra þjóðfélagi. Þannig þjóðfélag vil ég taka þátt í að skapa.
Ég styð konur og ungt fólk í komandi prófkjöri!
Tómas Ellert Tómasson
Verkfræðingur
Fyrri greinStóragerði breytt í Sjússamýri
Næsta greinÞetta er Selfossbúllan