Þú skiptir máli!

Ég er nýlega flutt í Hveragerði svo ég hef ekki þekkt bæinn og samfélagið mjög lengi en ég fann það strax að hér er gott að vera. Þessi bær hefur margt upp á að bjóða og mörg tækifæri gefast til þess að gera góðan bæ enn betri. Á þeim stutta tíma sem ég hef búið hér finnst mér eins og að ég hafi bara eiginlega eignast aðra fjölskyldu, fólkið í þessum bæ. Það er fátt fallegra en að sjá hvað þetta litla samfélag stendur við bakið á hvort öðru og allir eru tilbúnir til þess að hjálpa eins og þeir geta með hvað sem er. Þetta er þétt og gott bæjarfélag og get ég því með fullum hálsi sagt að ég sé stolt af því að vera í framboði hjá Framsókn í Hveragerði af því að ég vil leggja mitt af mörkum fyrir þennan góða bæ. Fólkið sem skipar lista Framsóknar í Hveragerði er þéttur og góður hópur sem er tilbúin að leggja sig gjörsamlega allan fram og bara samvinna sem er engu öðru lík.

Ég sem ungur kjósandi, hef ekki verið mikið í pólitík, vissi í raun lítið hvað þetta snerist um en tók þá ákvörðun að stinga mér bara í djúpu laugina sem ég er svo ánægð með að hafa tekið. Ég sá ekki fyrr en þá hvað það skiptir miklu máli að ungt fólk afli sér þekkingar og skoði virkilega valmöguleikanna. Lesi sér til um stefnu flokka því það skiptir máli að mynda sér eigin skoðun á eigin forsendum. Hvað vilt þú fyrir bæinn þinn, hvernig viltu sjá hann vaxa og dafna?

Framsókn vill heyra raddir unga fólksins og börðust til dæmis fyrir því að koma á ungmennaráði hér í bæ. Þú getur haft áhrif á hvernig bærinn þinn er. Ég vil hvetja þig til að mæta á kjörstað þann 14. maí því þín rödd skiptir mál og þitt atkvæði skiptir máli.

Kolbrún Edda Jensen Björnsdóttir,
skipar 7. sæti lista Framsóknar í Hveragerði

Fyrri greinOpnunarhátíð á mánudaginn
Næsta greinLátum verkin tala