Þjónustan tryggð áfram!

Í dag er gleðidagur í Uppsveitum Árnessýslu en í dag hefst hefðbundin starfsemi í nýrri heilsugæslu Uppsveita á Flúðum. Það er ekki á hverjum degi sem slíkt gerist, og því vel við hæfi að fagna þegar aðstaða og þjónusta er bætt og tryggð áfram í nærumhverfinu.

Nýtt húsnæði heilsugæslunnar uppfyllir allar kröfur um nútímalegt starfsumhverfi sem stuðlar að bættum starfsanda og jákvæðri upplifun bæði þeirra sem sækja þjónustuna og þeirra sem hana veita. Við óskum starfsmönnum heilsugæslu Uppsveita og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands innilega til hamingju með nýju aðstöðuna.

Hrunamannahreppur hafði umsjón með framkvæmdum við heilsugæsluna og vert er að þakka þeim verktökum og hönnuðum sem að verkinu komu. Selásbyggingar ehf. og HR smíði ehf voru aðalverktakar og eru þeim færðar innilegar þakkir fyrir góða vinnu, sem og öllum þeirra undirverktökum. Efla verkfræðistofa sá um hönnun og Guðmundur Hjaltason annaðist verkeftirlit eru þeim öllum færðar góðar þakkir fyrir vel unnin störf.

Hrunamannahreppur lærði mikið af þessari framkvæmd — enda ekki á hverju ári sem heilsugæsla er innréttuð í svo litlu sveitarfélagi. Ströngum kröfum var fylgt í öllum þáttum hússins og von okkar er sú að starfsfólki muni líða vel í nýju húsnæði og á nýjum stað.

Víða á landsbyggðunum er staða heilsugæslu með mun þyngra móti en hér verður raunin og því ber að þakka HSU fyrir að ráðast í þessar jákvæðu breytingar sem þegar hafa skilað okkur enn betri þjónustu en áður.

Við hér í Uppsveitum þurfum í það minnsta ekki lengur að óttast að starfsemin lognist út af og flytjist á Selfoss, heldur þvert á móti mun þjónusta eflast með fjölgun lækna , fjölbreyttari þjónustu og aukinni viðveru í heilsugæslunni, auk bættra möguleika fyrir viðbragðsaðila ef allt fer eins og best verður á kosið.

Raunin er sú að stöður hjá heilsugæslunni eru mannaðar, þrír fastráðnir læknar sinna störfum sínum þar. Við ættum öll að geta verið sammála um að aukin þjónusta, mönnuð störf, opnun apóteks við hlið heilsugæslunnar og nútímaleg, vel útbúin aðstaða í Uppsveitum sé öllum til heilla sem þar búa. Þannig eflum við Uppsveitirnar, íbúum okkar á öllum aldri til farsældar.

Til hamingju uppsveitir – framtíðin er björt.

Jón Bjarnason
Oddviti Hrunamannahrepps

Fyrri greinJóhanna Ýr gefur ekki kost á sér
Næsta grein„Sjónlína“ Hrafnhildar Ingu í Gallerí Fold