Það var uppselt í Árborg

Í tilefni af kostulegum málflutningi oddvita D-lista og eins af æðstu embættismönnum sveitarfélagsins þar sem sett er í efsta gír hræðsluáróðurs og rangfærsla, þvert á eigin vitneskju skal sannleikanum haldið til haga. Hið rétta er að það var uppselt í Árborg en svo er ekki lengur.

Vorið 2018 þegar núverandi meirihluti tók við var sannarlega uppselt í Árborg. Það voru engar lóðir til, langir biðlistar á leikskóla, yfirfullir grunnskólar og stjórnsýsla sveitarfélagsins veikburða og úr takti við kröfur nútímans.
Þetta var veruleikinn sem blasti við.

Á ótrúlega skömmum tíma tókst að greiða að mestu úr og bjóða lóðir til úthlutunar í nýju hverfi í Björkurstykki. Auk þess var fallið frá hugmyndum um að byggja við leikskólann Álfheima 3 deildir og fara í staðinn í að byggja nýjan 6 deilda leikskóla sem hlaut nafnið Goðheimar enda mun hagkvæmari framkvæmd og hugsuð til framtíðar en ekki sem bráðabirgðalausn eins og viðbygging hefði verið.

Farið var á fullt í að hraða byggingu nýs grunnskóla í Björkurstykki sem hlaut nafnið Stekkjaskóli. Byrjað er að kenna í honum í færanlegum kennsluhúsnæði og stefnt er á að aðalbyggingin verði tekin í notkun haustið 2022.
Að endingu var hætt við að bjóða út knatthús og farið í að byggja fyrri áfanga á fjölnota íþróttahúsi sem myndi nýtast til langrar framtíðar flestum iðkendum íþrótta og eldri borgurum til hreyfingar og þjálfunar. Það hús er risið og kallast Selfosshöllinn.

Auk þessa hefur verið unnið ötullega að því allt kjörtímabilið að byggja upp alla innviði sveitarfélagsins. Vinnurými og starfsaðstaða starfsfólks hefur verið stórbætt, fjölgað hefur verið starfsfólki á flestum sviðum til að mæta aukinni íbúafjölgun og bæta þar með þjónustu við bæði íbúa og atvinnurekendur.

Síðast en ekki síst var farið í gagngerar endurbætur á stjórnsýslu sveitarfélagsins, starfsfólk virkjað og valdeflt, mörg kerfi sveitarfélagsins uppfærð m.v. nútímakröfur og þjónustan bæði innan stjórnsýslunnar og við íbúana tók stakkaskiptum varðandi úrlausn og afgreiðslu hinna ýmissa erinda.

Heita vatnið
Heita vatnið er ekki að klárast í Svf. Árborg og það er ábyrðarlaust tal og ómerkilegur áróður hjá oddvita d-listans að reyna að hræða fólk með því. Það þarf hins vegar að skoða hvort hægja þurfi á uppbyggingu nýrra hverfa tímabundið meðan unnið er að frekari orkuöflun (sem að sjálfsögðu hefur verið unnið ötullega að allt kjörtímabilið) og bættri nýtingu á því heita vatni sem við erum nú þegar að dæla upp úr jörðinni. Með þessu er verið að sýna varkárni og ábyrgð.

Það vekur furðu að oddvitanum, verandi einn æðsti embættismaður sveitarfélagsins, þyki það undarlegt að embættismenn þess sendi á milli minnisblöð til að upplýsa um stöðu mála. Það er akkúrat ekkert leyndarmál hvernig staða heitavatnsöflunar er á hverjum tíma. Kannski finnst oddvitanum það eðlilegra að pískra um svona mál á göngum ráðhússins og halda sannleikanum frá fólki.

Oddvitinn þarf heldur ekki að hafa áhyggjur af því að Árborg verði skaðabótaskylt gagnvart einhverjum landeigendum því allir samningar sem gerðir hafa verið við eigendur einkahverfa kveða á um að uppbygging þeirra sé háð ýmsum skilyrðum og þar á meðal getu Selfossveitna til að afhenda heitt vatn. Þetta á jafnt við um Árbakkahverfið, Austurbyggð og Jórvíkurhverfið.

Það kveður því við holan hljóm í málflutningi oddvita D-listans þegar hann talar um stefnuleysi núverandi meirihluta og reynir að halda fram á sama tíma að undir forystu D-listans væri allt upp á 10. Aðgerðarleysi meirihluta D-listans 2014-2018 dæmir sig sjálft og það er engin þörf á að gera Bragabót á stefnu núverandi meirihluta nema síður sé enda hefur hann allt kjörtímabilið unnið í þágu allra íbúa sveitarfélagsins en ekki bara sumra.

Sigurjón Vídalín Guðmundsson,
skipar 2. sæti á S-lista Samfylkingarinnar í Árborg.

Fyrri greinVeistu um teikninguna af Kjarvalsbrúnni?
Næsta greinLítil skref fara langt í umhverfismálum