Sveitarfélög og þjóðin í Covid-19

Endurgreiðsla virðisaukaskatts til sveitarfélaga vegna ákveðins hluta framkvæmda- og viðhaldskostnaðar var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs Árborgar í gær, 4. júní. Bæjarráð undirstrikaði í ályktun sinni ánægju með þau jákvæðu skref sem þarna eru tekin til að ríki og sveitarfélög geti lagst saman á árarnar í að vinna gegn efnahagssamdrætti vegna Covid-19.

Það er nefnilega þannig að sveitarfélög eiga ekki þann valkost, eins og ríki og seðlabanki, að prenta peninga til að mæta áföllum og auknum framkvæmdum. Sveitarfélögum eru skýrt markaðir tekjustofnar af hálfu ríkisins og hafa þau mjög takmarkaða möguleika til skattahækkana til að mæta tekjutapi eða kostnaðarauka.

Það er mikilvægt að ríkið og sveitarfélögin komi saman að því að vinna gegn þeim samdrætti sem leiðir af Covid-19. Til að það takist giftusamlega þurfa þessir aðilar, ásamt íbúum, að vinna saman en ekki sitt í hvoru lagi. Ofangreind endurgreiðsla virðisaukaskatts er gott skref í þessa átt.

Bæjarráð samþykkti jafnframt á fundi sínum markvissar aðgerðir til að halda vel utan um rekstur sveitarfélagsins og framgang fjárhagsáætlunar í ljósi þeirra aðstæðna sem skapast hafa af Covid-19. Markmið þeirra aðgerða er að draga eins og frekast er unnt úr rekstrarhalla á árinu 2020. Ef vel tekst til og gæfan verður okkur hliðholl næst vonandi að takmarka halla ársins við 200 milljónir króna.

Í ljósi þess vanda sem mörg sveitarfélög munu glíma við vegna Covid-19 er staðan hjá Árborg mjög góð. Ekki er útlit fyrir sambærilegt atvinnuleysi og verið er að spá annarsstaðar. Jafnframt er mikil eftirspurn eftir húsnæði í sveitarfélaginu og áframhaldandi framkvæmda- og vaxtarskeið er því einboðið.

Sveitarfélagið Árborg mun ekki leggjast í hýði eða draga saman seglin í því ástandi sem þjóðin glímir nú við. Íþróttamenningin í bænum okkar hefur sýnt og sannað að hér getur fólk tekið saman höndum og unnið stórvirki. Við höfum öll tækifæri til að leggja okkar af mörkum til kraftmeira efnahagslífs í þágu lands og þjóðar.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar

Fyrri greinSet annast snjallmælavæðingu Selfossveitna
Næsta greinHeklukot fær Grænfánann í fimmta sinn