Sundlaugar gegna mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi og eru hornsteinn daglegs lífs margra. Þær eru meira en íþróttamannvirki – þær eru staður þar sem fólk hittist, ræðir málin og styrkir tengsl sín við samfélagið. Í heitu pottunum blandast saman kynslóðir, nýbúar og fastagestir þar sem skapast óformlegt rými fyrir samtal og samveru sem er einstakt í íslenskri menningu. Sundlaugar eru félagslegur vettvangur þar sem samfélagið speglast, styrkist og þroskast.
Í Sveitarfélaginu Árborg eru starfræktar tvær sundlaugar, á Selfossi og Stokkseyri. Frá sameiningu sveitarfélaganna árið 1998 hefur lítið verið gert í útisvæðum lauganna, sem sýnir jafnframt hversu vel mannvirkin voru hönnuð upphaflega. Sundlaugarnar eru sannkallaðir demantar í nærumhverfinu. Nýverið er búið að fara í miklar endurbætur á útisvæði sundlaugarinnar á Stokkseyri þar sem m.a. var skipt um sundlaugarkar. Áætlað er að gestafjöldi verði um 320 þúsund árið 2025, þar af 314 þúsund gestir á Selfossi og 7.600 á Stokkseyri. Rekstrarkostnaður lauganna fyrir árið 2025 er um 480 milljónir króna og áætlaðar tekjur um 110 milljónir.
Bættur opnunartími
Frá og með 1. desember verður opið klukkutíma lengur á kvöldin í Sundhöll Selfoss, þ.e. til kl. 22:00, mánudaga til fimmtudaga. Lenging opnunar er möguleg vegna aukins samstarfs við World Class um rekstur á húsnæði laugarinnar og er því ekki um að ræða kostnaðarauka umfram áætlun fyrir sveitarfélagið. Ekki voru þó allir sammála breytingunni þar sem fulltrúar Samfylkingar og oddviti Framsóknar kusu gegn tillögunni í bæjarstjórn Árborgar.
Það hefur þó verið ákall frá ungmennum og fjölskyldufólki um lengri opnunartíma á kvöldin. Þá geta ungmenni farið í sund eftir kvöldæfingar eða fjölskyldufólk þegar ró hefur komist á heimilið. Á Stokkseyri verður síðan opnunardögum fjölgað. Þar verður yfir vetrartímann, opið mánudaga til fimmtudaga frá 16:30–20:00 og óbreytt um helgar.
Saunuklefar
Nýr saunaklefi er væntanlegur á útisvæði sundlaugar Stokkseyrar og verður hann glæsileg viðbót við aðstöðu sundlaugargesta. Saunan mun auka fjölbreytni í þjónustu, bæta aðstöðuna fyrir bæði íbúa og ferðamenn og styðja við heilsueflingu á svæðinu. Á sama tíma stendur til að stækka saunaklefann við Sundhöll Selfoss, sem er mikið sóttur af gestum og í raun orðin of lítill miðað við fjölda notenda. Klefinn þarfnast viðhalds og mun stækkunin bæði bæta notendaupplifun og auka rými til að taka á móti fleiri gestum. Með framkvæmdinni verður komið fyrir tveimur mismunandi tegundum saunaklefa: hefðbundnum saunaklefa og nýjum infrarauðum klefa.

Með þessum breytingum eru sundlaugar Árborgar að taka stórt skref í átt að fjölbreyttari heilsu-, vellíðunar- og afþreyingaraðstöðu fyrir íbúa á öllum aldri. Markmiðið er að skapa umhverfi þar sem fólk getur bæði notið slökunar og stundað reglulega heilsurækt í nánu samhengi við þá sérstæðu menningu sem sundlaugar á Íslandi standa fyrir.
Ný kennslulaug
Vaxandi samfélag kallar á öfluga innviði og kennslusundlaug er þar mikilvægur liður. Í dag þurfa skólastjórar grunnskólanna að skipta sundtímum sín á milli vegna skorts á rými og getur það jafnframt dregið úr aðgengi almennings að sundaðstöðu á skólatíma.
Þarfagreining hefur farið fram um mat á stækkun núverandi útilaugar við Sundhöll Selfoss og hvort betra sé að byggja nýja laug við Sundhöllina eða við Sunnulækjarskóla, eins og gert var ráð fyrir í upphaflegri hönnun skólans. Niðurstaðan var sú að laug við Sunnulækjarskóla myndi ekki anna þörfum skólans ein og sér. Því var ákveðið að nýta þá innviði sem fyrir eru á sundlaugarsvæðinu á Selfossi.
Lagt er til að byggð verði ný kennslulaug, svipuð núverandi útilaug en breiðari. Hún verður staðsett við suðurenda sundlaugarsvæðisins og gert er ráð fyrir að hún verði 17,5 metrar á breidd og 25 metrar á lengd. Það gefur möguleika á sjö 25 metra brautum eða tíu 17,5 metra brautum.
Samhliða uppbyggingunni þarf að reisa nýjan lagnakjallara með búnaði fyrir laugina og búningsklefa fyrir eldri nemendur grunnskóla. Þeir yrðu staðsettir sunnan við núverandi útiklefa og með sérinngang af Bankavegi. Framkvæmdatíminn er áætlaður um fjórtán mánuðir og er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist seinni part næsta árs.

Sveinn Ægir Birgisson
Formaður bæjarráðs og bæjarfulltrúi D-lista.

