Sumar á Selfossi: Takk, þið eruð frábær!

Við í undirbúningsnefnd Sumars á Selfossi viljum koma á framfæri kæru þakklæti og góðum kveðjum til allra þeirra sem tóku þátt í hátíðinni með okkur með einum eða öðrum hætti.

Hver og einn á sinn þátt í því að gera hátíðina að því sem hún er. Allir bæjarbúar eiga stórt knús skilið fyrir þátttöku í hátíðarhöldunum og einstakt hugmyndaflug við skreytingar og að ná að breyta ásýnd bæjarins á örfáum klukkutímum.

Hátíðarhöldin stóðu frá fimmtudegi til sunnudags var mætingin vonum framar á alla viðburðina þrátt fyrir bleytu. Unga fólkið fékk stórgóða tónleika á fimmtudagskvöldinu þar sem sex hljómsveitir komu fram og var mætingin um 300 manns. Það er langt síðan slíkir jaðartónleikar hafa heppnast svona vel á Selfossi og eru þeir vonandi komnir til að vera. Ein af rósum hátíðarinnar voru tónleikarnir með Mannakornum sem haldnir voru á föstudagskvöldinu. Uppselt var á tónleikana en 650 gestir voru mættir í tjaldið og var stemmningin mögnuð. Tónleikarnir heppnuðust alveg gríðarlega vel og hljóðið var framúrskarandi. Einar Björnsson og hans menn hjá EB kerfum eiga mikið hrós skilið fyrir sína aðkomu að hátíðinni, án þeirra hefði ekki verið hægt að bjóða uppá slíka tónlistarveislu alla helgina. Delludagurinn var haldinn á sunnudeginum þar sem spólað var sem engin væri morgundagurinn. Þrátt fyrir að veðrið hafi reynst okkur erfitt var mætingin bara nokkuð góð og fólk almennt mjög ánægt með uppákomuna.

Styrktaraðilunum; Guðnabakaríi, HP kökugerð, MS, Krás, Bónus, Flytjanda, Samkaup, Lýsi og Europris þökkum við enn og aftur fyrir að bjóða til þessa glæsilega morgunverðarhlaðborðs. Sérstakar þakkir fær Bílverk BÁ sem bauð upp á frábæra flugeldasýningu. SET bauð bæjarbúum á rómaðan dansleik með Ragga Bjarna, Þorgeir Ástvalds og Þorvaldi Halldórssyni sem vakti mikla lukku eins og í fyrra. Þá viljum við sérstaklega þakka Sjóvá sem hefur verið einn öflugasti bakhjarl hátíðarinnar undanfarin ár.

Fyrirtækjaeigendum viljum við þakka fyrir að styðja svona vel við bakið á hátíðinni, án ykkar væri ekki hægt að bjóða uppá svona vandaða dagskrá. Við viljum sértaklega þakka Samtökum verslunar og þjónustu í Árborg fyrir þeirra aðkomu að hátíðinni, ratleikurinn og ljósmyndasamkeppnin hitti gjörsamlega í mark. Við erum gríðarlega stolt af því að hafa náð að virkja svona marga aðila með okkur í ár, samvinnan eflir og styrkir okkar ástkæra bæjarfélag. Starfsmönnum sveitarfélagsins þökkum við einnig fyrir ánægjulegt samstarf.

Við vonum að allir hafi skemmt sér eins vel og við gerðum og hlökkum til að sjá ykkur á næsta Sumar á Selfossi.

Knattspyrnufélag Árborgar

Fyrri greinUmferðartafir við Hveradali
Næsta greinStígurinn verður göngu- og reiðstígur